Fimmtándi landsfundur Kvennalista var haldinn að Úlfljótsvatni 14.-16. nóvember 1997. Á fundinn mættu 75 konur úr öllum landshlutum. Yfirskrift fundarins var: „Er vilji fyrir jafnri stöðu kynjanna á Íslandi?“

Á fimmtudagskvöldinu var haldinn opinn fundur í Norræna húsinu þar sem dr. Agnete Stark flutti fyrirlesturinn „Hvernig koma má landsfeðrunum á jafnréttisnámskeið“

Þetta reyndist átakamesti landsfundurinn í sögu Kvennalista. Undir dagskrárliðnum framboðsmál í alþingiskosningum 1999 var tekist á um hvort fara ætti í samstarf við A-flokkana. Hulda Ólafsdóttir lagði til, áður en umræðan hófst, að konur stæðu upp sem því væru hlynntar „að Kvennalistinn taki þátt í viðræðum um sameiginlegan málefnagrundvöll Kvennalista, Jafnaðarmanna, Alþýðubandalags og annarra hópa vegna alþingiskosninganna 1999.“ Meirihluti kvenna á fundinum stóð upp.

Í raun jafngilti gjörningurinn atkvæðagreiðslu og fór mjög fyrir brjóstið á þeim sem voru andvígar samstarfi við þessa flokka. Þeim fannst þessi óbeina atkvæðagreiðsla ganga þvert á þá hugmyndafræði Kvennalistakvenna að forðast atkvæðagreiðslu og rökræða málin þar til sameiginleg niðurstaða er fengin.

Margar þeirra kvenna sem höfðu starfað lengst í Kvennalistanum töluðu gegn tillögunni. Guðrún Agnarsdóttir talaði fyrir sáttum og sagði að augljóst væri að ágreiningurinn væri þess eðlis að engu skipti hvaða afstöðu landsfundurinn tæki. „Kvennalistinn mundi ekki ganga heill til viðræðna við aðra flokka.“ Hún hvatti til þess að minnihlutanum yrði ekki ýtt út í horn með því að láta sverfa til stáls í atkvæðagreiðslu.

Niðurstaða formlegrar atkvæðagreiðslu var sú að 38 sögðu já, 16 sögðu nei og 6 sátu hjá. Þessi málalok urðu til þess að Kristín Ástgeirsdóttir sagði skilið við þingflokkinn og hún ásamt fleiri Kvennalistakonum sögðu sig úr Kvennalistanum.

Sjá nánar ályktanir, úrsagnir kvenna úr Kvennalistanum og önnur gögn frá fundinum hér að neðan.

 

Myndir frá landsfundi á Úlfljótsvatni 1997

 

Skjöl frá landsfundi á Úlfljótsvatni 1997 (PDF)

 

Fréttir úr fjölmiðlum frá landsfundi á Úlfljótsvatni 1997 (PDF)

 

Óánægðar Kvennalistakonur funda í aðdraganda landsfundar

 

Úrsagnir kvenna úr Kvennalista eftir landsfundinn á Úlfljóstsvatni 1997 (PDF)