Í kosningunum 1983 bauð Kvennalistinn fram í þremur kjördæmum. Sú hugmynd kviknaði vorið 1984 að efna til hringferðar um landið í rútu til að kynnast konum á landsbyggðinni og hvetja þær til að stofna Kvennalista í sínu kjördæmi. Kvennarútan lagði af stað frá Víkinni í byrjun júní fagurlega skreytt og þéttskipuð kvennalistakonum. „Sigga, stoltur og sjálfbjarga bílstjóri, ók rútunni, sem var full af lífsglöðum og kátum konum sem höfðu boðskap að flytja og fannst þær vera á góðri leið með að bjarga heiminum, að minnsta kosti að gera hann að betri stað til að búa á, fyrir konur, börn og karla“ er haft eftir Guðrúnu Agnarsdóttur.

„Að vísu voru skoðanir skiptar um það hvort rútan gæti talist fagurlega skreytt því sumar hinna „penari“ kvenna áttu bágt með að sitja við glugga prýddan magabelti, brjóstahaldara eða kvennærbuxum og reyndu að velja sér sæti innan um friðardúfur og kvennamerki“ að sögn Kristínar Halldórsdóttur.

Alls kyns söluvarningur rokseldist. Allar fengu hlutverk á fundum, skipst var á að flytja ljóð, stýra fundum og rita fundargerðir. Notaðar voru 3–4 útgáfur af ræðum sem skipst var á að flytja. Útvarpsauglýsingar til að kynna fundina, vöktu athygli, en þær voru samdar á Víkinni. Kalltæki var með í för og frá því hljómuðu baráttusöngvar af plötunni Áfram stelpur þegar ekið var inn í bæina og íbúar hvattir til að mæta á fund um kvöldið.

Rútuferðin tók um mánuð, stoppað var á um 60 stöðum og haldnir tæplega 30 fundir. Ferðin endaði með lautartúr á Þingvöllum. Kílómetramælir kvennarútunnar sýndi að ekið hafði verið 4.700 kílómetra. Margar höfðu á orði að þetta hafi verið var ein skemmtilegasta revía sem þær hafi upplifað, stanslaust gaman allan tímann.

 

Myndir frá hringferð Kvennalistakvenna

 

Gögn úr hringferðinni (PDF)