Vorið 1999 lauk sögu þingflokks Kvennalista eftir 16 ára árangursríkt starf. Kvennalistakonur höfðu lagt fram fjöldann allan af þingmálum, flest tengdust málefnum kvenna og barna. En eins og Kvennalistakonur sögðu: „Öll mál eru kvennamál.“ Helstu málaflokkar voru; fæðingarorlofsmál, lífeyrismál kvenna, ofbeldis- og nauðgunarmál, umhverfismál, velferðarmál, barnaverndarmál, launa- og kjaramál, málefni fatlaðra, mennta- og menningarmál, skattamál, fiskveiðiðstjórnun og margt fleira.

Þingsályktunartillaga um könnun á rannsókn og meðferð nauðgunarmála var fyrsta þingmál Kvennalista sem fékkst samþykkt, vorið 1984.

Í fyrsta frumvarpi Kvennalista er kveðið á um lengingu fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex, greiðslur skuli vera með þeim hætti að foreldrar haldi fullum launum, allar konur fái óskert lágmarksfæðingarorlof án tillits til atvinnuþátttöku og réttarstöðu heimavinnandi móður. Gert var ráð fyrir að feður geti tekið fæðingarorlof í tvo mánuði með samþykki móður og skerðist þá orlof hennar sem því nemur. Í fyrsta skipti átti að tengja fæðingarorlofsgreiðslur við launagreiðslur. Umdeildasta atriði frumvarpsins var að fæðingarorlofsgreiðslur skyldu miðast við full laun foreldra.

Í lok maí 1999 voru gögn þingflokksins afhent Kvennasögusafninu. Þá höfðu 29 konur tekið sæti á Alþingi fyrir hönd listans. Guðrún Agnarsdóttir flutti ávarp við afhendinguna og nokkrar Kvennalistakonur fluttu Dómar heimsins, „þjóðsöng“ Kvennalista. Eftir formlega afhendingu gagnanna fóru Kvennalistakonur í Iðnó þar sem rifjaður var upp liðinn tími undir fjörugu borðhaldi.

 

Kvennalistakonur fagna í Iðnó

 

Gögn