Elín G. Ólafsdóttir varð borgarfulltrúi 1988, tók við af Ingibjörgu Sólrúnu sem hætti í borgarstjórn í samræmi við útskiptareglu. Elín skipaði fyrsta sæti í kosningunum 1990 og var borgarfulltrúi til ársins 1992 þegar Guðrún Ögmundsdóttir tók við af henni.

Sjaldnast fékk minni hlutinn tækifæri til að undirbúa sig fyrir borgarráðsfundi þar sem dagskrá borgarráðsfunda barst ekki fyrr en samdægurs. Kvennalistakonur áttu erfitt með að sætta sig við þetta fyrirkomulag og kröfðust þess að fá drög að dagskrá með sólarhringsfyrirvara svo borgarfulltrúar gætu undirbúið sig fyrir fundi. Þeirri kröfu var hafnað, það væri ekki hægt, svona hefði þetta verið síðustu 40 ár.

Guðrún Jónsdóttir, borgarfulltrúi (1982-1986), segir í viðtali í Fréttablaðinu 25. nóvember 2017: „Davíð var ofboðslega einráður maður og hans máti að umgangast þá sem voru ekki í hans flokki var að niðurlægja. Hæðast að. Ég tala nú ekki um kerlingar eins og okkur. Hann kom inn á útlit okkar. Við værum ekki frambærilegar, vitlausar. Við kynnum ekki neitt og við ættum bara að vera heima.“

Ofan á þessa lítilsvirðandi framkomu máttu þær búa við kynferðislegt áreiti eins og fram kemur í sama viðtali við Guðrúnu:

„Það var Albert Guðmundsson. Ég fékk aldrei frið. Hann setti sig aldrei úr færi. Hann var oft að ganga á eftir mér. Þegar maður fór í kaffi eða mat á borgarstjórnarfundum, þá var hann á eftir manni. Hann var grípandi í brjóstin á mér eða um rassinn. Þetta var svo þrúgandi, það var alveg sama hvernig ég sneri mig út úr aðstæðum eða hvað ég sagði við hann. Ég bað hann um að hætta. Sagði: „Þú skalt ekki halda að þetta sé eitthvað sem ég get hugsað mér að láta viðgangast.“ Það dugði aldrei neitt, hann hélt áfram. Hann settist oft við hliðina á mér við matarborð ef það var laust sæti. Hélt áfram að þreifa á lærunum á mér. Á endanum greip ég bara fast í klofið á honum og sagði: „Það er best að ég taki upp þína siði. Þá verða það kaup kaups.“ Það dugði í þessu tilviki. Loksins hætti hann. En þetta var svo yfirgengilegt og fékk á mig.“

Sjá viðtalið í heild sinni hér að neðan.

 
Myndir
 
Viðtöl