Kvennaframboðskonur voru ekki allar hlynntar því að bjóða fram til Alþingis. Þegar ákveðið hafði verið að bjóða fram í nafni nýstofnaðs Kvennalista  flutti hann af Hótel Vík upp á Hverfisgötu 50 þar sem rekin var kraftmikil kosningabarátta.

Mikið var farið á vinnustaðafundi. Þar var sú regla viðhöfð að konur færu tvær og tvær saman. Bæði til að dreifa ábyrgð en einnig til að þjálfa konur í að koma fram. Áhersla var lögð á stuttar ræður. Konurnar skiptust á að flytja sömu ræðurnar og ávörpin aftur og aftur. Það gat verið sérkennilegt að hlýða á konu sem vön var að tjá sig á mjúkan og hógværan hátt lesa ræðu eftir konu sem notaði hástemmt og kjarnyrt mál.

Konur með enga reynslu af því að koma fram eða flytja ræðu urðu að velja milli þess að fara í sjónvarp, útvarp eða á vinnustaðafundi, enginn griður var gefinn.

Kosningahátíð var haldin í Gerðubergi á sumardaginn fyrsta þar sem Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Jónsdóttir fluttu ræður en aðaláhersla var á fjölskyldudagskrá.

Framboðið vakti athygli víða um heim. Um 40 erlendir fréttamenn frá dagblöðum, sjónvarps- og útvarpsstöðvum komu til landsins til að fylgjast með kosningabaráttunni. Þeir leituðu mikið til utanríkisráðuneytisins sem efndi til blaðamannafundar þar sem fréttamönnum gafst kostur á að spyrja fulltrúa flokkanna. Þetta var fyrsti fundur af þessu tagi enda lítill áhugi á kosningum hér á landi fram til þessa.

Í þrem efstu sætunum voru Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir.

Úrslitin voru þau að Kvennalistinn í Reykjavík fékk 8,4% og tvær þingkonur.

 
Myndir frá kosningabaráttunni 1983
 
Ræður og greinar í kosningabaráttunni í Reykjavík 1983 (PDF)
 
Fréttir og fréttatilkynningar
 
Dreifi- og fréttabréf 1983 (PDF)
 
Sigmund (PDF)