Í upphafi hafði Sumarhópur um Kvennaframboð engan fastan samastað utan þess að vikulegir fundir voru haldnir í Norræna húsinu. Í desember 1981 tók Kvennaframboð Hótel Vík eða Víkina á leigu. Næstu vikur fóru öll kvöld og helgar í að hreinsa út drasl, gera við, spasla og mála.

Árin sem Kvennafraboð og Kvennalisti höfðu aðstöðu á Víkinni var alltaf mikið líf og fjör. Árið 1984 var byrjað að bjóða upp á svo kallað laugardagskaffi á Víkinni yfir vetrarmánuðina. Hugmyndin var ættuð frá Rauðsokkahreyfingunni sem bauð upp á kaffi, fyrirlestra og aðrar uppákomur á laugardagsmorgnum sem gefist höfðu vel. Umræðuefni fyrsta vetrarins voru hin fjölbreytilegustu, má þar nefna femínisma, getnaðarvarnir fyrr og nú, kynskiptan vinnumarkað, listsköpun kvenna og konur á Grænhöfðaeyjum.

Stofnun Kvennaframboðs og síðar Kvennalista fylgdi bylgja nýrra kvennasamtaka og mörg þeirra fengu aðstöðu á Víkinni. Ákveðið var í lok janúar 1984 að breyta Víkinni í Kvennahús. Meðal þeirra sem voru með  aðsetur á Víkinni voru eftirfarandi: (Sjá einnig nánari upplýsingar neðar á síðunni.)

  • Vera, blað Kvennaframboðs í Reykjavík og síðar Kvennalista, sem kom fyrst út í október 1982.
  • Friðarhreyfing íslenskra kvenna, stofnuð 1983.
  • Kvennalisti stofnaður í mars 1983, fluttist á Víkina í júlí 1983.
  • Samtök kvenna á vinnumarkaði fengu aðsetur á Hótel Vík eftir stofnfund í desember 1983. Markmið samtakanna var fyrst og fremst að vinna að bættum hag kvenna á vinnumarkaði. Kvennaframboð stóð að fjölmennri ráðstefnu haustið 1982 undir yfirskriftinni „Kjör kvenna“ þar sem höfðað var til kvennastétta sem flestar tilheyrðu láglaunahópum. Samtök kvenna á vinnumarkaði voru stofnuð í framhaldi af ráðstefnunni.
  • Kvennaráðgjöf, stofnuð í febrúar 1984, var ráðgjöf sem bauð konum upp á félagslega og lagalega ráðgjöf þeim að kostnaðarlausu.  Ráðgjöfin var veitt einu sinni í viku.
  • Kvennahópur Samtakanna ´78 Íslensk lesbíska, fékk aðsetur á Víkinni í mars 1985.

Auk þess sem að ofan er talið má nefna sem dæmi um hina miklu grósku, stofnun Kvennaathvarfs 1982 og Friðarömmur. Í öllum þessum samtökum voru kvennalistakonur mjög virkar.

Í maí 1988 var Víkin kvödd og Kvennalisti og Vera fluttu aðsetur sitt að Laugavegi 17.

 
Myndir frá Hótel Vík
 
Skjöl tengd Hótel Vík (PDF)
 
Íslensk lesbíska, kvennahópur Samtakanna ´78
 
Kvennaráðgjöf
 
Kvennaskóli Kvennalista
 
Samtök kvenna á vinnumarkaði
 
Hótel Vík kvödd 1988 og flutt á Laugaveg 17