Konur höfðu vaðið fyrir neðan sig fyrir kosningarnar 1991. Þegar á árinu 1990 var byrjað að endurskoða stefnuskrána. Sjá má vissar áherlsubreytingar. Í stað þess að leggja áherslu á sameiginlega reynslu og samstöðu kvenna var áherslan á margbreytileikann. Einnig voru fjórir nýir kaflar í stefnuskránni sem fjalla um barnavernd, stjórnkerfið, málefni samkynhneigðra og Efnahagsbandalagið.

Kvennalistinn átti á brattann að sækja og kosningabaráttan ekki eins kraftmikil og verið hafði. Úrslit kosninganna urðu þau að Kvennalistinn tapaði í öllum kjördæmum. Hann fékk 8,3% atkvæði á landsvísu og fimm þingkonur kjörnar. Tapaði þingsæti á Norðurlandi eystra og Vesturlandi.

Í Reykjavík fékk Kvennalistinn 12% atkvæða og þrjár þingkonur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kristín Einarsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir settust á þing í Reykjavíkurkjördæmi.

Kvennalistinn jók mest fylgi sitt á Vestfjörðum eða um 2,5%, fékk 7,8% og þingkonan Jóna Valgerður Kristjánsdóttur settist á þing. Í Reykjaneskjördæmi fékk Kvennalistinn 7% atkvæða og eina þingkonu, Önnu Ólafsdóttur Björnsson.

Þetta var í þriðja skipti sem Kvennalistinn bauð fram til Alþingis. Á þeim tíma hafði hlutfall kvenna á Alþingi farið úr 5% í 24% og þingkonum fjölgað úr 3 í 15.

Að kosningum loknum mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur Viðeyjarstjórnina.

 
Þingkonur og varaþingkonur 1991-1995
 
Fréttir og tillögur að málefnagrundvelli í hugsanlegum stjórnarmyndunarviðræðum
 
ESB - EES (PDF)

Bæði á landsfundi 1989 og 1991 var ályktað gegn aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og ESB. Kvennalistakonur höfðu í langflestum málum talað einum rómi út á við og verið sammála um stefnuna. Sterk kvennasamstaða var hluti af ímynd Kvennalistans. Það olli því töluverðum titringi þegar Ingibjörg Sólrún lýsti því yfir að hún væri ósammála meirihluta þingflokksins um afstöðuna til EES samningsins og að honum væri hafnað á jafnafgerandi hátt og gert er í stefnuskrá frá 1991 þar sem segir „að Ísland standi utan Evrópubandalagsins og evrópska efnahagssvæðisins.“

Á samráðsfundi haustið 1992 greindi Ingibjörg Sólrún frá því að hún treysti sér ekki til að greiða atkvæði gegn EES samningnum á Alþingi. Hún sagðist alltaf hafa haft efasemdir um afstöðu Kvennalistans í þessu máli og henni finnist hún svíkja eigin samvisku ef hún léti ekki í ljós efasemdir sínar. Nær allir fulltrúar dreifbýlisins á fundinum höfðu fundað heima í héraði þar sem lýst var yfir miklum stuðningi við stefnu Kvennalistans í EES málinu. Skiptari skoðanir voru meðal Reykjavíkurkvenna.

Á landsfundi 1992 urðu heitar umræður um EES en reynt var að fara bil beggja. Áréttuð var fyrri stefna um að móta framtíð Íslendinga utan EES. Jafnframt var minnt á að þó ákvarðanir landsfunda séu stefnumarkandi væri ekki hægt að gera þá kröfu til Kvennalistakvenna að þær greiði atkvæði gegn eigin sannfæringu.

Umræðan um EES málið var kvennalistakonum erfið og hafði slæm áhrif á andann í hreyfingunni. Þetta var í fyrsta skipti sem Kvennalistinn var klofinn í mikilvægu máli og það tók á.

Sjá nánar gögn hér að neðan. Sjá einnig gögn og ályktanir um EES frá landsfundum 1989, 1991 og 1992.

 
Þingmál (PDF)
Fæðingarorlof

Kvennalistinn lagði ríka áherslu á lengingu fæðingarorlofs og flutti nokkrum sinnum frumvörp um lenginu þess úr 6 í 9 mánuði.

Á landsfundi Kvennalistans í Viðey árið 1996 fór fram umræða helguð lengingu þess í níu mánuði og rétti feðra til að taka orlof. Í skjali um fæðingarorlof segir í B lið. „Foreldrar geta skipt með sér fæðingarorlofi, þó þannig að hvort um sig getur að hámarki tekið 6 mánuði. Með þessu er reynt að tryggja að faðir taki a.m.k. 3 mánuði annars falli rétturinn niður.“

Í ályktun landsfundarins segir: „Stofnaður verði fæðingarorlofssjóður sem tryggi öllum launþegum full laun í fæðingarorlofi. Allir atvinnurekendur greiði ákveðið hlutfall af heildarlaunum í sjóðinn. Kvennalistinn vill að fæðingarorlof verði lengt úr 6 í 12 mánuði og af því verði feðrum tryggður a.m.k. 3 mánaða sjálfstæður réttur.“

Ályktunin sýnir að Kvennalistinn var mjög róttækur í fæðingarorlofsmálum og var fyrstur flokka til að orða þá hugmynd að feðrum verði tryggður 3ja mánaða sjálfstæður réttur. Sjá nánar skjöl frá landsfundi í Viðey 1996.

Árið 2000 voru samþykkt á Alþingi lög í þessum anda. Samkvæmt þeim eiga foreldrar „sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.“

 
Kynjahalla mótmælt
 
Fundaferðir um landið