Kvennaframboð og Kvennalisti notuðu svo kallaða útskiptareglu til að dreifa valdi og ábyrgð. Hún fól í sér kerfisbundin útskipti á Alþingi, í sveitastjórnum, nefndum og ráðum.

Útskiptin voru hugsuð sem tæki til að:

  • dreifa valdi og ábyrgð, sýna mörg andlit og láta margar raddir óma
  • þjálfa konur í stjórnmálum, fá fleiri til að taka þátt og auka þannig lýðræðið í landinu
  • búa til marga sérfræðinga með reynslu og þekkingu.

Skipt var út konum á fjögurra til sex ára fresti á Alþingi og í sveitarstjórnum, enn örar í nefndum og ráðum, auk þess sem konur skiptust á að koma fram í fjölmiðlum.

Gagnrýnisraddir urðu æ háværari bæði innan hreyfingar og utan eftir því sem á leið. Farið var að efast um skynsemi þess að skipta út fulltrúum svo ört. Konur voru rétt að byrja að öðlast reynslu og þekkingu þegar þeim var kippt út og varakona fór inn. Dýrmæt reynsla færi forgörðum og varakonan væri á byrjunarreit. Kjósendur voru augljóslega ósáttir við þetta fyrirkomulag.

Árið 1990 var samþykkt að hætta að skipta út fulltrúum á miðju kjörtímabili. Eftir sem áður var í gildi sú samþykkt að konur sitji ekki lengur en 1-2 kjörtímabil í senn.

Eftirfarandi eru fjögur dæmi um útskipti:

Eftir sex ára setu í borgarstjórn hætti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir árið 1988 á miðju kjörtímabili og Elín G. Ólafsdóttir tók sæti hennar í borgarstjórn.

Elín var borgarfulltrúi í fjögur ár. Guðrún Ögmundsdóttir tók við af henni á miðju kjörtímabili árið 1992.

Eftir sex ára þingsetu, árið 1989, sagði Kristín Halldórsdóttir af sér þingmennsku á miðju kjörtímabili og Anna Ólafsdóttir Björnsson settist inn á þing.

Árið eftir, 1990, settist Guðrún Halldórsdóttir inn á þing í stað Guðrúnar Agnarsdóttur sem hafði setið á þingi í sjö ár.

 

Myndir

 

Skjöl sem tengjast útskiptum (PDF)

 

Fréttir úr fjölmiðlum um útskipti Kvennalista (PDF)