Á þeim 17 árum (1982-1999) sem Kvennaframboð og Kvennalisti áttu sæti í sveitarstjórnum og á þingi náðist mikill árangur í baráttumálum framboðanna.

Þeim tókst að koma stefnumálum sínum af jaðrinum og inn á miðjuna. Þær gjörbreyttu umræðunni varanlega og komu málum á dagskrá sem höfðu legið í þagnargildi á Alþingi og í samfélaginu. Má þar nefna klám, kynferðislegt ofbeldi sem og annað ofbeldi gegn konum og börnum.

Kvennaframboðið átti frumkvæði að því að Kvennaathvarf var stofnað 1982 og Kvennalisti átti þátt í stofnun Neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðisafbrota.

Kvennalistinn var fyrsta pólitíska aflið sem studdi mannréttindabaráttu samkynhneigðra meðal annars með sérstökum kafla í stefnuskrá um réttindi þeirra.

Flutt voru frumvörp um lengingu fæðingarorlofs kvenna sem og sérstakt fæðingarorlof fyrir karla. Einnig voru fluttar tillögur um dagvistar- og skólamál.

Konurnar voru friðarsinnar, vildu leggja niður hernaðarbandalög, draga úr kjarnorkuvígbúnaði og auka friðarfræðslu.

Umhverfis- og náttúruverndarmál skipuðu mikilvægan sess og þingkonur Kvennalistans fluttu meðal annars fyrsta frumvarpið um stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis. Þær vöktu athygli á möguleikum ferðaþjónustu sem framtíðaratvinnugreinar og fluttu tillögur um úrbætur á ferðamannastöðum í því skyni að vernda náttúruna og tryggja sjálfbærni. Þær voru á móti stóriðju, litu á hana sem gamaldags og úreltan atvinnukost sem valdi mengun og spilli náttúrunni.

Þær mótuðu tillögur um stjórn fiskveiða sem var ætlað að tryggja raunverulegan eignarrétt þjóðarinnar á auðlindum hafsins og stuðla að meira atvinnuöryggi fiskvinnslufólks, aðallega kvenna, í heimabyggð. Þær hugðust ná þessum markmiðum með því að tengja úthlutun fiskveiðikvóta við byggðarlög eftir ákveðnum reglum, fyrir ákveðið gjald.

Hlutfall kvenna í borgarstjórn fór úr 20% í 53,3%, á þremur kjörtímabilum Kvennaframboðs og Kvennalista (1982-1994), og konum fjölgaði úr þremur í átta af 15 fulltrúum. Á landsvísu rúmlega þrefaldaðist hlutfall kvenna í sveitarstjórnum fór úr 6% í 25%.

Hlutfall kvenna á Alþingi rúmlega fjórfaldaðist. Fór úr 5%, þegar Kvennalistinn bauð fram 1983, í 25% þegar Kvennalistinn bauð fram í síðasta skipti 1995. Fjöldi þingkvenna fór á sama tíma úr 3 í 16.

 

Árangur í tölum

Hlutfall kjörinna þingkvenna

Hlutfall kvenna í borgarstjórn

Hlutfall kvenna í sveitastjórnum

 

Hvað finnst þeim?

Anna Ólafsdóttir Björnsson

Kvennalistinn opnaði kvenfrelsiskonum leiðina að hátölurum samfélagsins. Við létum í okkur heyra og gerbreyttum umræðunni varanlega, settum kynbundinn launamun, kynbundið ofbeldi og umhverfismál á dagskrá. Fundum kvenfrelsishlið á hverju einasta máli og komum henni á framfæri. Hlutur, fjöldi og áhrif kvenna víðs vegar, þar sem ráðum var ráðið í samfélaginu, fór úr því að vera nánast ekki neinn í að verða umtalsverður og umræðan breyttist með tilkomu kvenna. Kvennalistinn ruddi brautina fyrir konur með alls konar skoðanir og kvenfrelsisfólk af hvaða kyni sem er.

 

Danfríður Skarphéðinsdóttir

Ný sýn fólst í því að skoða stjórnmálin út frá sjónarhóli kvenna. Nýjar hugmyndir og vinnubrögð, framsýni og jákvæð nálgun voru í mínum huga einkennandi fyrir hugmyndafræði og starf Kvennalistans. Árangurinn var beinn og óbeinn og fjölmörg mál urðu viðfangsefni stjórnmálanna í fyrsta sinn í sögunni, sum voru formlega samþykkt og önnur ýttu á breytingar. Við vorum óþreytandi að benda á mismunandi stöðu og sýn karla og kvenna á samfélagsleg málefni og skilgreindum stjórnmálinu upp á nýtt út frá reynslu og menningu kvenna. Þannig mótuðum við stefnu með hag kvenna og barna að leiðarljósi. Sú stefna endurspeglast með skýrum hætti í málflutningi Kvennalistans á Alþingi.

Umhverfis- og náttúruverndarmál skipuðu mikilvægan sess og m.a. fluttu þingkonur Kvennalistans fyrsta frumvarpið um stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis. Við bentum á nauðsyn þess að huga jafnt að konum og körlum við uppbyggingu atvinnutækifæra ekki síst á landsbyggðinni.

Við mótuðum heilsteyptar tillögur um stjórn fiskveiða sem ætlað var að tryggja raunverulegan eignarrétt þjóðarinnar á auðlindum hafsins og stuðluðu jafnframt að meira atvinnuöryggi fiskvinnslufólks (aðallega kvenna) í heimabyggð. Þessum markmiðum vildum við ná með því að tengja úthlutun fiskveiðikvóta við byggðarlög eftir ákveðnum reglum og fyrir ákveðið gjald sem m.a. skyldi varið til menntunar fólks í fiskvinnslu og sjávarútvegi, rannsókna og vöruþróunar.

Við vöktum athygli á möguleikum ferðaþjónustu sem framtíðaratvinnugreinar og fluttum tillögur um úrbætur á ferðamannastöðum í því skyni að vernda náttúruna og tryggja sjálfbærni. Einnig fluttum við tillögur um hvernig nýta mætti nútímatækni til að staðsetja störf vítt og breitt um landið auk tillögu um handverksráðgjafa á landsbyggðinni. Sú tillaga var samþykkt og má rekja stofnun samtakanna Handverk og hönnun til hennar. Stærstu mál Kvennalistans voru alla tíð að leiðrétta laun kvenna og annarra láglaunahópa og að vinna gegn kynferðisofbeldi gegn konum og börnum, þau mál komust á dagskrá stjórnmálanna fyrir tilstilli Kvennalistans.

Guðrún Agnarsdóttir

Mitt mat er að hugarfarsbylting Kvennalistans hafi tekist. Hreyfingin var virk og lifði í 16 ár, 1983 til 1999, lengur en nokkur önnur pólitísk hreyfing utan fjórflokkanna. Hún varð til þess að hlutfall kvenna á þingi jókst til muna. Einnig rötuðu ýmis þingmál Kvennalistans beint til bóta fyrir samfélagið, ýmist með samþykktum málum eins og Neyðarmóttökunni eða gegnum aðra flokka síðar, eins og fæðingarorlof. Við breyttum umræðunni. En, það sem ef til vill er merkasti ávinningur Kvennalistans er einmitt sá andi sem hann blés konum í brjóst.

Við vorum fyrirmyndir. Þessi opna umræða um stöðu kvenna hefur stappað í konur stálinu, gefið okkur sterkari sjálfsmynd, meira sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Þetta gildir líka um þær konur sem ekki studdu eða kusu Kvennalistann. Við látum ekki lengur framhjá okkur ganga, gerum ríka kröfu um að vera gjaldgengar og metnar að verðleikum. Við tölum um glerþak og bakslag, skilgreinum hindranir í vegi okkar til þess að geta fjarlægt þær. Við viljum aukið rými og samþykkjum ekki allar leikreglur, en bjóðum upp á nýjar sem henta okkur betur. Við höfnum ofbeldi í öllum þess myndum. Okkur blöskra ákvarðanir og dómar karla sem dæma ríkjandi skipulagi í hag og viðhalda valdaleysi kvenna. Við sættum okkur ekki við þá útskýringu að fjarvistir kvenna á þeim vettvangi þar sem stefnumótun fer fram, sé vegna þess að hvergi finnist hæfar konur. Konur hafa menntað sig, tekist á við fjölbreytileg hlutverk og staðið sig afburðavel. Verið leiðtogar, talað á fundum og stjórnað þeim, komið fram í fjölmiðlum, leyst erfið mál í nefndum, konur sem vilja, geta og þora. Það skiptir þó öllu máli að þær konur sem veljast til forustu og sem fulltrúar okkar séu margar. Einar eru þær veikar og auðveldara að víkja þeim til hliðar. Það er líka áríðandi að þær séu jafnframt málsvarar kvenna og vinni að bættum hag þeirra. Kvennapólitík er ekki bara það að konur séu í pólitík, heldur að þær vinni þar konum í hag.

Hólmfríður Garðarsdóttir

Árangur Kvennalistans er ómælanlegur en samt áþreifanlegur og sýnilegur í öllum kimum samfélagsins.

Fyrir tilstuðlan Kvennalista og Kvennalistakvenna komust málefni kvenna á dagskrá, ekki bara á löggjafarsamkomu Íslendinga, Alþingi, heldur um allt samfélag. Hægt og bítandi varð hvorki aðhlátursefni, né furðulegt, að vísa til reynsluheims kvenna sem verðugs sjónarhorns til að nálgast og fást við úrlausn mála.

Aukið áræði og sjálfsálit kvenna hefur gert Ísland að öðruvísi – og eftirtektarverðari – stað en var fyrir stofnun Kvennalistans.

Hulda Ólafsdóttir

Kvennaframboðið (og síðar Kvennalistinn) var góður skóli þar sem ég fékk þjálfun í að horfa til framtíðar. Markvisst var rætt um sameiginlega framtíðarsýn á nærumhverfið og samfélagið í heild. Við spurðum spurninga eins og hvernig viljum við hafa skólakerfið, heilbrigðiskerfið, atvinnulífið, jafnrétti kynjanna og fleira og komumst að sameiginlegri niðurstöðu.

Langt, skemmtilegt og lærdómsríkt ferli endaði í stefnuskrá sem allir gátu sætt sig við, varið og barist fyrir. Aðferðir voru lýðræðislegar, allar raddir fengu að hljóma og síðan ræddum við saman þar til sameiginleg niðurstaða náðist. Fyrir mig var þetta mikið þroskaferli. Að fá tækifæri til að vinna fyrir hönd Kvennalistans í Reykjavíkurlistanum var gríðarlega mikil og góð reynsla. Þá vorum við í meirihluta í borginni. Þar nýttist vel að hafa framtíðarsýn og skýrar pólitískar áherslur. Þannig gátum við komið áfram mörgum málum sem við töldum mikilvæg fyrir konur og borgarbúum til heilla.

Ég gleðst oft yfir því að hafa komið ákveðnum málum í farveg í nefndum t.d. atvinnumálanefnd. Enn þann dag í dag má sjá hvernig ákveðin verkefni hafa dafnað og verið hundruðum kvenna til eflingar í atvinnulífinu eins og til dæmis verkefnið Brautargengi.

Fyrir mig persónulega var gott og gefandi að vera í Kvennalistanum. Vissulega vorum við ekki alltaf sammála um allt og tókumst á um aðferðir og málefni. Engu að síður myndaðist milli okkar í Kvennalistanum öflugur vináttu- og samstöðustrengur sem heldur enn í dag og er gott að eiga fjölda góðra kvenna að.

Það er ennþá mikil þörf fyrir Kvennalista og er það von mín að öflugar konur taki upp þráðinn á ný – þær munu fá minn stuðning.

 

Kristín Ástgeirsdóttir

Þegar kvennaframboðin í Reykjavík og á Akureyri komu fram árið 1982 var hlutur kvenna í sveitarstjórnum rúm 6% og 5% á Alþingi. Í dag eru konur 44% sveitarstjórnarmanna og 48% þingmanna. Það var þessi famboðshreyfing kvenna sem kom skriðunni af stað og fylgdi henni eftir. Áhrifin voru því mikil fjölgun kvenna sem kjörnir fulltrúar.

Annað sem Kvennalistinn gerði var að setja málefni kvenna á dagskrá þings og sveitarstjórna sem og ýmis önnur stórmál. Þar má nefna ofbeldi gegn konum og börnum, stöðu samkynhneigðra, launamisréttið, fæðingarorlof, vanmat á störfum kvenna, kröfur um markvissa jafnréttisstefnu, frið og neikvæðar hliðar stóriðjustefnunnar (einhæfni, karlastörf og mengun) og umhverfismál í stóra sem smáa samhenginu.

Það þriðja sem skiptir miklu máli er að Kvennalistakonur voru á vaktinni í 17 ár og veittu stjórnvöldum verðugt aðhald með fyrirspurnum, í ræðum og riti og með tillögum. Því miður hefur vaktin verið fremur stopul eftir að sögu Kvennalistans lauk og því þarf að breyta.

Sigrún Jóhannesdóttir

Mín sýn á mikilvægan árangur Kvennalistans er að hann:

  • Breytti viðhorfi í samfélaginu til ýmissa mála sem varða velferð kvenna og barna, þau komust að sem mikilvæg þingmál.
  • Virkjaði konur í pólitík sem ekki hefðu annars tekið þátt í pólitísku starfi og jók hlutdeild kvenna í stjónum og nefndum, líka í sveitarstjórnum.
  • Sýndi fram á að samtakamáttur kvenna er kröftugt afl til framfara þegar honum er beitt.
  • Breytti vinnubrögðum á Alþingi og sýndi fram á hve stöðnuð, karllæg og oft máttlaus þau voru.
  • (Breytti sýn kvenna í öðrum flokkum á hvernig kvennamál eiga ekki síður erindi á þing en ýmis hefðbundin karlamál ! )

Sigrún Jónsdóttir

Í mínum huga felst árangur Kvennalistans í því að fjölga konum á Alþingi til skemmri eða lengri tíma, nú er hlutfallið um 48% en var 5% árið 1983. Kvennalistinn hafði mikil áhrif á stjórnmálin og stjórmálaumræðuna á sínum tíma. Við settum mál á dagskrá sem áður höfðu varla verið rædd á vettvangi Alþingis. Þar má nefna óréttlátan og óþolandi launamun kynjanna, alltof stutt fæðingarorlof, umhverfisvernd og kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum. Neyðarmóttakan hefði sennilega ekki orðið til nema fyrir einarða baráttu þingkvenna okkar. Orðræða okkar um kvenfrelsi, reynsluheim kvenna og feðraveldið opnaði augu margra, hægt og bítandi, fyrir nýrri nálgun í pólitískri umræðu. Við skoðuðum öll mál út frá því hvaða áhrif þau hefðu á stöðu kvenna, barna og fjölskyldna. Öll mál eru kvennamál sögðum við sem þótti ekki sjálfsagt fyrir 35 árum. Í dag eru líklega fáir sem halda því fram að einhver samfélagsleg málefni komi konum ekki við.

Við sýndum í verki að kvennasamstaða skilar sér. Konur eru sterkari saman og ég tel það hafi hvatt aðrar konur til að standa saman í baráttu sinni á hinum ýmsu sviðum samfélagsins. Að bjóða fram oftar en einu sinni til Alþingis í nafni Kvennalistans og í sveitarstjórnum var ekki sjálfgefið. Það var ekki hefð fyrir því að nýir flokkar lifðu lengur en eitt kjörtímabil. Það sýndi styrk og góðan árangur að við bættum verulega við okkur í kosningunum 1987. Aðkoma Kvennalistans að sameiginlegum framboðum í sveitarstjórnum skipti miklu máli, þannig komst málflutningur okkar mun víðar til skila og áhrifin voru töluverð ekki síst í Reykjavík. Við höfnuðum hægri og vinstri skilgreiningum í stjórnmálunum, sem var í andstöðu við pólitíska umræðuhefð þess tíma og gerði mörgum erfitt fyrir að staðsetja okkur í umræðunni. Það skipti máli að halda því til streitu og falla ekki í þá gryfju að láta aðra skilgreina okkur. Vinnubrögðin, valddreifing, hreyfing án formanns skóp sérstöðu okkar í stjórnmálunum og í dag eru stjórnmálaflokkar sem hafa leitað í þessa smiðju. Kvennalistinn var og er fyrirmynd sem vitnað er til sem er árangur í sjálfu sér.