Vorið 1981 fóru konur að hittast reglulega og ræða hugsanlegt kvennaframboð, hugmyndafræði þess, stefnumál og skipulag. Þær vildu breyta hugarfari og gildismati í samfélaginu, gera konur sýnilegar, koma fleiri konum til valda og vera þar sem ráðum var ráðið, þær vildu samfélag sem setti velferð barna í forgang. Konurnar vildu óhefðbundin vinnubrögð sem endurspegluðust í valddreifingu, formannsleysi og kerfisbundinni útskiptingu á fulltrúum þeirra.
Þegar hugmyndafræðigrundvöllur framboðsins lá fyrir, og drög að lögum og stefnuskrá, var boðað til stofnfundar á Hótel Borg hinn 31. janúar 1982. Sigrún Sigurðardóttir kynnti hugmyndafræðigrundvöll, Erna Arngrímsdóttir drög að stefnuskrá og Kristín Jónsdóttir drög að lögum. Þórhildur Þorleifsdóttir flutti hvatningarávarp í lok fundar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var fundarstjóri. Fleiri hundruð mættu á stofnfundinn og um 120 manns gerðust stofnfélagar. (Sjá gögn hér að neðan)
Við undirbúning og stofnun Kvennaframboðs urðu þáttaskil í lífi flestra þeirra kvenna sem að því stóðu. Þau voru ekki eingöngu pólitísk heldur einnig persónuleg, vinasambönd mynduðust fyrir lífstíð. Þarna mættust konur úr öllum áttum sem vildu leggja fram krafta sína til að styrkja stöðu kvenna. Þetta voru konur sem höfðu starfað saman í Rauðsokkahreyfingunni og/eða stúdentapólitíkinni, konur nýkomnar frá námi erlendis, húsmæður, listakonur og konur sem aldrei höfðu komið nálægt kvennabaráttu og allt þar á milli.
Það sem einkenndi þær var jákvæðnin, sköpunarkrafturinn, gleðin og eftirvæntingin að sjá framboð kvenna verða að veruleika. Ári síðar eða 1983 var Kvennalisti stofnaður til að bjóða fram til Alþingis.
Þessar hreyfingar opnuðu konum leiðina að hátölurum samfélagsins. Þær gerbreyttu umræðunni varanlega og komu málum á dagskrá sem höfðu legið í þagnargildi bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum. Má þar meðal annars nefna klám, kynferðislegt ofbeldi sem og annað ofbeldi gegn konum og börnum.
Á þeim 17 árum (1982-1999) sem Kvennaframboð og Kvennalisti áttu sæti í sveitarstjórnum og á þingi náðist verulegur árangur. Vitundarvakning varð í samfélaginu, orðræðan breyttist og það tókst að skapa umræðu um stöðu kvenna.