Eftir að ákveðið hafði verið að bjóða fram voru aðeins átta vikur til að fullmóta stefnu, raða á lista, afla fjár og skipuleggja kosningabaráttu. Viku síðar var fundur á Hallveigarstöðum þar sem stofnaðir voru hópar til að móta stefnu í kvennapólitík, skóla- og fræðslumálum, umhverfismálum, atvinnu- og launamálum, valddreifingu, félagsmálum, friðar- og utanríkismálum, menningarmálum, efnahagsmálum og heilbrigðismálum. Eins og við stefnuskrárvinnu Kvennaframboðs tóku á annað hundrað konur þátt í að móta stefnuna. Í nefnd sem sá um samræmingu stefnuskrárinnar sátu Guðrún Jónsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Stefnuskráin byggði á stefnuskrá Kvennaframboðs svo langt sem hún náði. Lagt var til að Alþingi beitti sér fyrir gagngerðu endurmati á störfum kvenna og fullorðinsfræðsla yrði efld sem var mikið hagsmunamál fyrir konur, ekki síst þær sem höfðu verið heimavinnandi og vildu komast aftur út á vinnumarkaðinn. Í jafnréttiskönnun sem gerð var í Reykjavík árin 1980–1981 kom í ljós að 64% kvenna áttu að baki skólagöngu undir tíu árum en einungis 28% karla. Kvennalistinn vildi að húsmóðurstörf yrðu metin til starfsreynslu á vinnumarkaði og lífeyris- og tryggingarmál húsmæðra yrðu tekin til gagngerðrar endurskoðunar. Jafnframt vildi Kvennalisti beita sér fyrir að komið yrði á sex mánaða fæðingarorlofi fyrir allar konur. Lögð var áhersla á dagvistarrými fyrir öll börn. Í stefnuskrá voru einnig sett fram krafa um að skóladagur barna yrði samfelldur og almennur aðbúnaður barna og unglinga bættur.

Kvennalisti skilgreindi sig sem umhverfishreyfingu. Í stefnuskrá segir að Kvennalisti muni beita sér gegn stóriðju vegna þess að hún eyðileggi og mengi náttúru landsins og henni fylgi byggðarleg og félagsleg röskun. Stóriðja bjóði einnig hlutfallslega upp á fá atvinnutækifæri og sé gamaldags atvinnukostur.

Á fundi í Háskólabíói í apríl 1983 sagði Guðrún Agnarsdóttir að kvennalistakonur vilji skilgreina hugtökin hagkvæmni og arðsemi á nýjan hátt. Þær vilji vita hvaða áhrif ákvarðanir stjórnvalda hafi á líf fólks í nútíð og framtíð og hvernig þær samræmist verndun náttúruauðlinda.

Kvennalistakonur, eins og Kvennaframboðskonur, lögðu sig fram um að endurskapa orðræðuna og sækja líkingar úr eigin veruleika. Þær líktu þjóðfélaginu við þjóðarheimili og sögðu að það ætti að reka á sama hátt og „hin hagsýna húsmóðir“ rekur eigið heimili. Guðrún Jónsdóttir borgarfulltrúi lagði til að hugtakið yrði notað um efnahagsstefnu Kvennalista. Það feli í sér að ráðstafa því sem til er „á skynsamlegan hátt, eyða ekki um efni fram og rækta eigin garð.“ Það teldust engin búhyggindi að eyða um efni fram. Viðhorf hinnar hagsýnu húsmóður átti vel við á þessum tíma mikillar verðbólgu og því mikilvægt að draga úr þenslu.

Eftir mikla umræðu um afstöðuna til NATO og veru bandaríska hersins var tekin sú ákvörðun að fara ekki inn í stjórnmálaumræðuna undir hinum hefðbundnu slagorðum „Ísland úr NATO herinn burt“. Heldur leggja áherslu á að leggja niður öll hernaðarbandalög, taka upp friðarfræðslu og hefja baráttu gegn kjarnorkuvá. Síðar benti Kvennalisti á að umhverfismál væru einn mikilvægasti þátturinn í samskiptum þjóða um öryggismál. Umræða um NATO og herinn, sem konur óttuðust að mundi skapa deilur, reyndist þegar til kom lítið vandamál.

(Texti byggður á bók Kristínar Jónsdóttur: „Hlustaðu á þína innri rödd.“ Kvennaframboð í Reykjavík og Kvennalisti 1982-1987)

 

Ljósmyndir og skjöl frá stefnumótunarfundum Kvennalista

 

Blaðamannafundur um stefnuskrá Kvennalista 1983