Kvennaframboð í Reykjavík og á Akureyri bauð fram í sveitarstjórnarkosningunum vorið 1982. Fljótlega komu upp umræður í Reykjavík um hvort bjóða eigi fram til Alþingis vorið 1983. Skiptar skoðanir voru um málið og fram fóru miklar umræður og deilur. Þrisvar sinnum varð sú niðurstaða í skoðanakönnunum að meirihlutinn var andvígur framboði til Alþingis. Að lokum var sú ákvörðun tekin á félagsfundi í febrúar 1983 að Kvennaframboð mundi ekki standa að framboði til Alþingis. Jafnframt var samþykkt að ákvörðunina beri ekki að skilja svo, að framboðið hafni þingframboði sem leið í baráttunni fyrir bættri stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Þar með fengu þær konur sem voru hlynntar framboði stuðning Kvennaframboðs.

Kristín Halldórsdóttir kemst svo að orði um þennan atburð: „Í þessu tilviki, og reyndar mörgum öðrum, hefur það sýnt sig að konur í þessari hreyfingu hafa annan skilning á málum nefnilega þann að meirihlutinn hafi engan sjálfkrafa rétt til þess að þvinga einhverri niðurstöðu upp á minnihlutann. Þess vegna eyddu þær oft miklum tíma í að ræða málin fram og aftur til að reyna að ná samstöðu og ef það gékk ekki þá er niðurstaðan sú að leggja ekki stein í götu þeirra sem af sannfæringu vilja fara aðra leið.“

Næsta skref var að halda almennan borgarafund til að kanna með undirtektir við framboð til Alþingis og kynna drög að stefnu í helstu málaflokkum. Niðurstaða fundarins var að boðið yrði fram í Alþingiskosningunum undir nafninu Kvennalisti.  

Kvennalistinn byggði stefnu sína í landsmálum á sömu hugmyndafræði og hugmyndum og þeim sem lagðar voru til grundvallar í stefnuskrá Kvennaframboðs. Má þar meðal annars nefna kvennamál, valddreifingu, skóla- og menningarmál, heilbrigðis- og félagsmál, fæðingarorlofsmál, efnahags- og atvinnumál og friðar- og utanríkismál. 

Stofnfundurinn var haldinn 13. mars 1983 á Hótel Esju. Á fundinum fór fram hópvinna um drög að stefnu í einstökum málaflokkum. Stofnfélagar á fundinum voru 102. Stefnuskráin var kynnt á blaðamannafundi í lok mars.

 

Ljósmyndir frá stofnfundi Kvennalista 1983

 

Skjal frá fundinum á Esju (PDF)