Eftir kosningar 1987 var ríkur vilji hjá Kvennalistakonum að fara í ríkisstjórn. Gengið var frá málefnagrundvelli fyrir stjórnarmyndunarviðræður ef til þeirra kæmi.

Þegar Þorsteinn Pálsson formaður Sjálfstæðisflokks fékk umboð til stjórnarmyndunar boðaði hann Alþýðuflokk og Kvennalista til viðræðna. Í samningaviðræðum voru kvennalistakonur reiðubúnar að slá af ýmsum kröfum. Forgangskrafa þeirra var að setja í lög bann við að greiða laun fyrir dagvinnu undir framfærslukostnaði einstaklinga. Hækkun lágmarkslauna mundi verulega bæta hag kvenna því þær voru stærsti láglaunahópurinn. Kvennalistakonur stóðu fast á sínu og létu að lokum brjóta á þessari kröfu þegar ekki reyndist vilji til að samþykkja hana.

Kjósendur virtust kunna vel að meta staðfestu Kvennalistans. Hann naut vaxandi fylgis í skoðanakönnunum sem náði hámarki í apríl og maí 1988 þegar hann fékk rúmlega 30% fylgi og var þar með stærsta stjórnmálaafl landsins.

Eftir að slitnaði upp úr viðræðum við Kvennalista mynduðu Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur ríkisstjórn undir forystu Þorsteins Pálssonar.

 
Myndir frá stjórnarmyndunarviðræðum 1987
 
Málefni í stjórnarmyndunarviðræðum 1987
 
Skilyrðislaus krafa um lögbindingu lágmarkslauna í stjórnarmyndunarviðræðum 1987
 
Skoðanakannanir 1988
 
Stjórnarmyndunarviðræður haustið 1988

Haustið 1988 sprakk ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar í beinni útsendingu. Eftir nokkrar tilraunir til stjórnarmyndunar fékk Steingrímur Hermannsson stjórnarmyndunarumboð. Hann bauð Kvennalistanum ásamt A-flokkunum að samningaborðinu. Kvennalistinn var alfarið á móti frystingu launa og fjötruðum samningsrétti sem var útgangspunkturinn í stjórnarmyndunarviðræðunum. Sumar Kvennalistakonur litu svo á að aldrei hafi verið raunverulegur vilji fyrir því að mynda ríkisstjórn með þátttöku Kvennalista. Ný ríkisstjórn var að lokum mynduð með Framsóknarflokki, Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi undir forystu Steingríms Hermannssonar. Sjá nánar skjalið „Annáll stjórnarmyndunarviðræðna“