Fljótlega eftir kosningarnar 1982 fór í gang umræða um hvort bjóða ætti fram til Alþingis að ári. Skiptar skoðanir voru um skynsemi þess. Um haustið var haldin ráðstefna í Ölfusborgum til að ræða hugsanlegt framboð. Tvær framsögur voru fluttar, Helga Thorberg talaði fyrir þingframboði og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gegn því. Eftir framsöguerindin urðu heitar umræður þar sem sitt sýndist hverri. Um 50 konur voru á fundinum. Helstu rök gegn þingframboði voru:

 • Framboð til borgarstjórnar var hugsað sem tímabundin aðgerð eða andóf því aðrar leiðir hafi ekki þótt færar í bili.
 • Kvennaframboð reyndist góð pólitísk aðgerð sem óvíst væri að yrði endurtekin með sama árangri.
 • Borgarmálastarfið myndi sitja á hakanum að minnsta kosti í aðdraganda kosninganna og þingframboð yrði of mikil blóðtaka.
 • Verið væri að hlaupast undan ábyrgð og hliðra sér hjá því að takast á við þau mörgu verkefni sem biðu í borgarstjórn.
 • Erfitt yrði að fá konur í fimm efstu sætin á framboðslista.
 • Alþingisframboð kvenna yrði til þess að gera kvennapólitík að einkamáli Kvennaframboðs. Tilvist slíks framboðs mundi einoka umræðuna og hindra að aðrar kvennahreyfingar blómstruðu.
 • Erfitt yrði að móta stefnu í utanríkis- og varnarmálum.
 • Kvennaframboð væri grasrótarhreyfing. Með því að bjóða fram til þings væri verið að breyta því í flokk. Það mundi smám saman gangast kerfinu á hönd og taka upp hefðbundin vinnubrögð.

Rök með þingframboði voru meðal annars eftirfarandi:

 • Þingleið geti greitt götuna fyrir baráttumálum kvenna gegnum kerfið.
 • Hægt verði að hafa áhrif á löggjöfina í landinu með því að leggja fram frumvörp og þingsályktunartillögur sem tengdust hagsmunum kvenna.
 • Einstætt tækifæri til að koma fleiri femínistum á þing og þannig fái kvennapólitíkin örugga málsvara.
 • Fjölmiðlar fylgist betur með þingmálum en borgarmálum og því kæmust hagsmunir og málstaður kvenna „betur að hljóðnemunum“
 • Kvennamál myndu fá meira vægi í kosningabaráttunni.
 • Fylgið í borgarstjórnarkosningum bendi til þess að alþingisframboð fái hljómgrunn.
 • Með framboði til borgarstjórnar hefði verið mörkuð ákveðin stefna. Kvennaframboði bæri skylda til að fylgja henni eftir á þingi, það skapi líka pólitískan valkost fyrir fjölda fólks.

Allar voru sammála um að ekki væri ætlunin að stofna pólitískan kvennaflokk til frambúðar. Markmiðið hlyti að vera að gera Kvennaframboð óþarft.

Á næstu vikum og mánuðum fór mikill tími og orka í að ræða hugsanlegt þingframboð. Alls voru haldnir sjö félagsfundir um málið. Á þriðja félagsfundi í lok nóvember var skipað í sex hópa til að ræða hugmyndina nánar. Skoðanakönnun var gerð í hverjum hópi um afstöðuna til þingkosninga. Niðurstaðan var sú að af 51 konu voru 69% á móti framboði, 12% hlynntar og 19% hlutlausar. Hinar eldri voru fremur hlynntar framboði. Þeim fannst „vera búið að tala nóg og vildu fara að framkvæma.“

Þær konur sem vildu framboð til þings fóru að hittast óformlega heima hjá hver annarri. Skipað var í þrjá hópa til að ræða atvinnu-, umhverfis- og friðarmál og hvaða erindi kvennaframboð ætti á þing. Niðurstöður hópanna voru síðar notaðar sem drög að stefnuskrá Kvennalista.

Þær sem tóku þátt voru Elín G. Ólafsdóttir grunnskólakennari, Guðrún Agnarsdóttir læknir, Guðrún Jónsdóttir borgarfulltrúi og félagsráðgjafi, Helga Jóhannsdóttir húsmóðir, Helga Thorberg leikkona, Ingibjörg Hafstað kennari við HÍ og MH, Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur, Kristín Einarsdóttir lífeðlisfræðingur, Kristín Jónsdóttir framhaldsskólakennari, María Jóhanna Lárusdóttir framhaldsskólakennari, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir mannfræðingur og Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri. Þessar konur urðu kjarninn í þeim hópi sem stóðu að stofnun Kvennalista. Fjórar þeirra, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir, stóðu stóðu einnig að stofnun Kvennaframboðs í Reykjavík. Af öðrum stuðningskonum má nefna Guðnýju Guðbjörnsdóttur prófessor, Hólmfríði Árnadóttur framkvæmdastjóra, Láru V. Júlíusdóttur lögfræðing og Sigurbjörgu Aðalsteinsdóttur fulltrúa.

Þær sem voru á móti Alþingisframboði voru fyrst og fremst konur sem störfuðu mikið að borgarmálum. Má þar nefna Guðrúnu Ólafsdóttur lektor, Hjördísi Hjartardóttur félagsráðgjafa, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sagnfræðing, Kristjönu Bergsdóttur kennara, Magdalenu Schram blaðakonu, Snjólaugu Stefánsdóttur fulltrúa hjá Unglingaathvarfi í Tryggvagötu og Þórkötlu Aðalsteinsdóttur kennara.

Í byrjun janúar 1983 hélt Kvennaframboð fjórða félagsfundinn um framboð. Margar konur tóku til máls og var mikill hiti í umræðunni. Lögð var fram tillaga um „að ganga til atkvæðagreiðslu strax“ sú tillagan var felld.

Fimmti félagsfundurinn var haldinn í byrjun febrúar. Heitt var í kolunum og Steinunn Hjartardóttir félagsráðgjafi, sem var andvíg framboði taldi rangt „að þær konur sem væru mótfallnar framboði“ gætu komið í veg fyrir að hópur kvenna biðu fram. Í umræðunni kom fram almennur ótti við að Kvennaframboð mundi klofna og leiðir skiljast.

Hópur kvenna sem var hlynntur framboði bar upp eftirfarandi tillögu: „Félagsfundur Kvennaframboðsins í Reykjavík haldinn 5. febrúar 1983 samþykkir að Kvennaframboðið bjóði fram til Alþingis í komandi kosningum.“ Tillagan var felld með 26 atkvæðum gegn 24, einn seðill var auður.

Flestar töldu að hér með væri umræðunni um Alþingisframboð lokið. Því var ekki að heilsa. Eftir fundinn hringdi Helga Jóhannsdóttir í nokkrar konur sem voru hlynntar framboði og kvaðst ekki sátt við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og vildi að konur hittust og réðu ráðum sínum. Helstu rök Helgu voru þau að kvennaframboðskonur hefðu alltaf lagt áherslu á að margar leiðir væru færar í kvennabaráttu. Sú stefna hefði ríkt að styðja bæri konur hvar í flokki sem þær stæðu. Hún taldi ósanngjarnt að hópur kvenna gæti staðið í vegi fyrir því að aðrar konur byðu fram til Alþingis og „boltinn fór aftur að rúlla“. Helga hefur verið kölluð „ljósmóðir“ Kvennalistans. Þetta útkall varð til þess að þær sem voru hlynntar framboði ákváðu að reyna til þrautar að fá einhvers konar umboð frá Kvennaframboði til að fylgja hugmyndinni um framboð eftir.

(Texti Kristín Jónsdóttir byggður á bók hennar: „Hlustaðu á þína innri rödd.“ Kvennaframboð í Reykjavík og Kvennalisti 1982-1987)

 

Myndir frá ráðstefnu í Ölfusborgum haustið 1982 um hvort bjóða eigi fram til Alþingis

 

Gögn frá ráðstefnu í Ölfusborgum um hugsanlegt alþingisframboð

 

Sjö fundir Kvennaframboðs um framboð til Alþingis