Upp úr 1988 fóru að heyrast háværar raddir um að hreyfingin væri farin að staðna, grasrótin væri ekki nógu virk og konur biðu eftir ákvörðunum og yfirlýsingum í einstökum málum frá þingflokki. Á félagsfundi Kvennalista í desember 1988 er deilt á að þingflokkurinn sé orðin valdamiðstöð, grasrótin sýni lítið frumkvæði og að andlitum út á við fari fækkandi.

Í þessu andrúmslofti var gengið til sveitarstjórnarkosninga árið 1990. Efstu þrjú sætin skipuðu Elín G. Ólafsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Ingibjörg Hafstað.

Kosningabaráttan fór seint af stað ekki síst vegna umræðna um hugsanlega samfylkingu félagshyggjuaflanna. Að venju voru gefin út dreifirit og bæklingar. Fjölskylduhátíð var haldin í Iðnó á uppstigningardag og á dagskrá var leiklist, tónlist og upplestur.

Málflutningur Kvennalistans náði ekki eyrum almennings í eins ríkum mæli og verið hafði. Það vantaði sérstöðuna því mörg af kosningaloforðum Kvennalistans voru komin á loforðalista annarra flokka, auk þess sem konur voru ofar á listum þeirra en verið hafði. Það má segja að báðir þessir þættir hafi verið óbeinn árangur af starfi Kvennalista og í því fólst viss sigur.

Kosningaúrslitin urðu þau að Kvennalistinn fékk 6% atkvæða. Árið 1982 fékk hann 10,9% og 8,1% árið 1986. Úrslitin urðu því mikil vonbrigði.

Kvennalistinn bauð fram á þremur öðrum stöðum en fékk enga konu kjörna. Á Akureyri fékk hann 5,2% atkvæða, Ísafirði 6,3% og í Kópavogi 5,5%. Einnig voru kvennalistakonur með á sameiginlegum framboðum á Seltjarnarnesi, Selfossi, Garðabæ og Mosfellsbæ.

Árið 1990 var síðasta skiptið sem Kvennalisti bauð fram í Reykjavík. Árið 1994 var búið að mynda R-listann.

 
Myndir
 
Framboðslisti
 
Dreifirit og fréttir
 
Fjölskylduhátíð í Iðnó
 
Ræður, greinar og viðtöl