Hugmyndafræðigrundvöllur Kvennaframboðs samþykktur 1982

Strax í upphafi var lögð mikil áhersla á að hreyfingin byggði á sterkum hugmyndafræðilegum grundvelli sem konur gætu sameinast um. Konur í Sumarhópi Kvennaframboðs, sem höfðu verið í Rauðsokkahreyfingunni voru hugmyndafræðilega hallar undir marxískan femínisma. Mikill vilji var þó fyrir breyttum áherslum og nýjum leiðum.

Fljótlega kom í ljós að menningarfemínismi, sem Helga Sigurjónsdóttir kynnti fyrir hópnum, var hugmyndafræði sem höfðaði til kvennanna.  Hann grundvallast á því að konur eigi sérstakan sameiginlegan reynsluheim á grundvelli kynferðis og hann sé sameiginlegur öllum konum. Hann ráðist af uppeldi, rótgrónum hlutverkum og vinnu kvenna á heimilinu og helgist af því að konur ali af sér börnin, fæði þau, klæði og sjái um umönnunarstörfin á heimilum. Þessi menning eigi sér aldagamlar rætur, arfur sem borist hafi frá kynslóð til kynslóðar og mótað sjálfsmynd kvenna.

Kvennamenningarnálgunin var andstæð þeirri píslarvættismynd sem oft var dregin upp af konum og stöðu þeirra. Með því að vekja athygli á reynslu kvenna og hinu jákvæða í lífi þeirra var verið að styrkja sjálfsmyndina og undirstrika mikilvægi framlags kvenna til samfélagsins. Hugtökin „kvennamenning“ eða „reynsluheimur kvenna“ ruddu farveg fyrir sjónarmið umhyggju og fjölskylduábyrgðar inn í stjórnmálin.

Kvennamenning gerði ráð fyrir að konur samsömuðu sig með öðrum konum óháð stétt og uppruna. Andstætt marxískum femínisma sem grundvallaðist á slagorðunum: „Engin stéttabarátta án kvennabaráttu. Engin kvennabarátta án stéttabaráttu.“

Mikil vinna var lögð í hugmyndafræðigrundvöll framboðsins og stefnuskrá sem byggði á hugmyndafræðigrundvellinum og haldnir ótal fundir um málið.

Í janúar 1982 var opin ráðstefna um hugmyndafræði á Hótel Vík.  Skipað var í hópa sem ræddu fjórar spurningar; Hvers vegna kvennaframboð? Hver er tilgangur kvennaframboðs? Hvað eiga samtökin að heita? Og hver er afstaðan til þátttöku karla? Helga Kress, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Helga Jóhannsdóttir voru kosnar í samræmingarefnd til að vinna úr niðurstöðum hópanna og leggja fram drög að hugmyndafræðigrundvelli. Hann var síðan samþykktur með litlum breytingum um miðjan janúar.

Langlífi framboðanna má tvímælalaust skýra með mikilli umræðu um hugmyndafræðina og stefnuskrá.

 

 

(Texti Kristín Jónsdóttir byggður á bók hennar: „Hlustaðu á þína innri rödd.“ Kvennaframboð í Reykjavík og  Kvennalisti 1982-1987.)

 

Skjöl (PDF)