Fjórtándi landsfundur Kvennalista var haldinn í Viðey. Yfirskrift fundarins var „Frá orðum til athafna, aðgerða og framkvæmda“ Á sjötta tug kvenna úr öllum kjördæmum mætti á fundinn. Fundurinn hófst á föstudagskvöldinu með opnum fundi í Norræna húsinu þar sem flutt voru þrjú erindi um ímynd kvenna í fjölmiðlum, kvikmyndum og auglýsingum.

Á laugardeginum var rætt um menntamál og fæðingarorlofsmál, nýjar hugmyndir Kvennalistans um fæðingarorlof og tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um fæðingarorlof karla.

Kvennalistinn hafði  alltaf lagt ríka áherslu á lengingu fæðingarorlofs og flutti nokkrum sinnum frumvörp um lenginu þess úr 6 í 9 mánuði. Meginumræða landsfundarins var helguð lengingu þess og fæðingarorlofi feðra. Í skjali um fæðingarorlof segir í B lið. „Foreldrar geta skipt með sér fæðingarorlofi, þó þannig að hvort um sig getur að hámarki tekið 6 mánuði. Með þessu er reynt að tryggja að faðir taki a.m.k. 3 mánuði annars falli rétturinn niður.“

Í ályktun landsfundarins segir: „Stofnaður verði fæðingarorlofssjóður sem tryggi öllum launþegum full laun í fæðingarorlofi. Allir atvinnurekendur greiði ákveðið hlutfall af heildarlaunum í sjóðinn. Kvennalistinn vill að fæðingarorlof verði lengt úr 6 í 12 mánuði og af því verði feðrum tryggður a.m.k. 3 mánaða sjálfstæður réttur.“ Ályktunin sýnir að Kvennalistinn var mjög róttækur í fæðingarorlofsmálum og er fyrstur flokka til að orða þá hugmynd að feðrum verði tryggður 3ja mánaða sjálfstæður réttur. Árið 2000 voru samþykkt á Alþingi lög í þessum anda.

Einnig var á fundinum rætt um samstarf við aðra flokka. Á sunnudeginum var umræðuefnið jafnréttisáætlanir og stöður jafnréttisfulltrúa á Akureyri og í Reykjavík.

Sjá nánar ályktanir, ræður og önnur gögn frá fundinum hér að neðan.

 

Skjöl frá landsfundi í Viðey 1996 (PDF)

 

Ræður og greinar frá landsfundi 1996 (PDF)

 

Fréttir og viðtöl í fjölmiðlum frá landsfundi í Viðey 1996 (PDF)