Kvennaframboð (1982-1986) og Kvennalisti (1983-2000) gáfu út fjöldann allan af dreifiritum, blöðum, bæklingum og tímaritum á sinni 17 ára ævi. Fréttabréf Kvennalistans kom út mánaðarlega að jafnaði og var sent til félaga um land allt og Kvennalistinn í Reykjavík gaf reglulega út Kvennapóstinn fyrir félaga í Reykjavík. Einnig voru gefin út kosningablöð og stefnuskrár fyrir kosningar.

Veglegasta útgáfan var tímaritið Vera sem hóf göngu sína 1983. Vera kom út nokkrum sinnum á ári til ársins 2005.

 

Kvennaframboðsblöð

Fyrir sveitarstjórnarkosningar 1982 voru gefin út tvö kosningablöð í Reykjavík sem báru heitið Kvennaframboðið. Í fyrra blaðinu var fyrst og fremst kynning á stefnuskrá, hugmyndafræðigrundvelli og framboðslista. Í síðara blaðinu voru viðtöl við fiskverkakonur og ljósmæður og grein eftir Guðrúnu Jónsdóttur um dagvistarmál. Niðurstaða hennar var að reynsla síðustu átta ára sýndu að hvorki „hægri“ né „vinstri“ borgarstjórnir hefðu veitt þessum málaflokki forgang.

Síðasta Kvennaframboðsblaðið kom út 1983. Útgáfa þess var liður í því að leggja mat á störfin í borgarstjórn, nefndum og ráðum og vinna úr þeirri reynslu sem konurnar höfðu aflað sér á því ári sem liðið var frá kosningum.

Fréttabréf Kvennalista 1983 – 1999

Fréttabréf Kvennalista hóf göngu sína í byrjun nóvember árið 1983. Það kom út 10–12 sinnum á ári fram til ársins 1999. Það var að jafnaði 12–16 síður í litlu broti og sent til félaga um land allt. Í fyrsta tölublaði segir: „Tilgangur fréttabréfsins er að segja fréttir af starfi Kvennalistans: Störfum þingkvenna, bakhópa, framkvæmdaráðs, þingráðs og kvennalistakvenna í opinberum nefndum. Einnig að miðla fréttum utan af landi og út á land.“

Skoða Fréttabréfið á timarit.is.

Frá konu til konu (1984)

Frá konu til konu með undirtitlinum KvennalistinnSaga, stefna og skipulag er bæklingur sem Kvennalistinn gaf út 1984. Hann er 22 blaðsíður að stærð.

Skoða Frá konu til konu á Bækur.is

Frá Kvennalistanum til þín (1990)

Frá Kvennalistanum til þín. Undirtitillinn er Kvennalistinn spyr: Er kvenþjóðin sátt…? Meðal efnis er spurningin um það hverra hagsmunir kvennapólitík sé, hvað sameini konur og stefna Kvennalistans í framkvæmd. Bæklingurinn er 14 blaðsíður að stærð.

Skoða Frá Kvennalistnum til þín í Bækur.is

Kvennapósturinn (1991-1998)

Kvennapósturinn er fréttabréf Reykjavíkuranga sem var gefinn út á árunum 1991–1998 og flutti fréttir af starfinu í Reykjavík.

Skoða Kvennapóstinn á Timarit.is.

Pilsaþytur

Pilsaþytur kom út í fyrsta skipti í Vestfjarðakjördæmi fyrir kosningarnar 1987. Fyrir kosningar 1991 kom blaðið út í fjórum kjördæmum. Árið 1993 gaf Kvennalistinn í Reykjavík út afmælisritið Pilsaþyt.

Fyrir kosningarnar 1995 komu út 8 kjördæmablöð af Pylsaþyti kosningablaði Kvennalistans, eitt fyrir hvert kjördæmi. Forsíðan, og hluti af innsíðum, er eins í öllum blöðunum. Í hverju kjördæmablaði fjalla nokkrar innsíður um viðkomandi kjördæmi.  Þetta sama kosningaár gáfu Norðurland eystra og Norðurland vestra út Pylsaþyt.

 

Skoða Pilsaþyt á Timarit.is: