Stefnuskrár Kvennalista fyrir Alþingiskosningar 1983, 1987, 1991 og 1995

Í stefnuskrám Kvennalistans eru öll mál talin kvennamál og þau skoðuð út frá sjónarhóli kvenna. Alls staðar er femínísk sýn og áhersla á það sem sameinar konur.

Þjóðin hafði verið klofin í afstöðu sinni til inngöngunnar í NATO og veru hersins. Eftir að ákveðið var að bjóða fram til Alþingis 1983 var ljóst að afstaðan til hersins gæti hugsanlega rofið samstöðu kvenna.Kvennalistinn hafnaði þeirri skilgreiningu að  flokkar væru annað hvort til „hægri“ eða „vinstri“ og sagðist vera „þriðja víddin“ Afstaða til veru Íslands í NATO og hersins á Íslandi jafngilti yfirlýsingu um hvort flokkur væri til „hægri“ eða „vinstri“ í stjórnmálum.

Niðurstaðan í hermálinu var sú að Kvennalistinn noti ekki slagorðin „Ísland úr NATO herinn burt“ heldur leggi áherslu á að þjóðin sameinist í baráttu fyrir afnámi allra hernaðarbandalaga, dregið verði úr kjarnorkuvígbúnaði og friðarfræðsla aukin.

Kvennalistakonur komu umhverfismálum á dagskrá. Þær voru á móti stóriðju vegna umhverfissjónarmiða, töldu hana dýran, gamaldags og úreltan atvinnukost og henni fylgdi byggðarleg og félagsleg röskun. Þær litu svo á að hrein og óspillt náttúra væri dýrmætasta auðlindin. Varað var við hættu á fjárhagslegum ítökum erlendra aðila.

Í byggðamálum er talin „þörf á nýju verðmætamati, byggðu á kvenlegri lífssýn.“

Í stefnuskrá 1987 er í fyrsta skipti fjallað um ofbeldi gegn konum og börnum í stefnuskrá stjórnmálaflokks. Lagt var til að komið verði upp neyðarmóttöku fyrir börn og fjármagn tryggt til Kvennaathvarfs. Varað var við auknu framboði á klámi, sem verði stöðugt grófara, auk þess sem konur og börn séu misnotuð í klámiðnaðinum.

Hvatt er til sjálfbærni í náttúruvernd og lögð áherla á að gengið sé um auðlindir með virðingu og nærgætni. Heildarlög verði sett um umhverfismál og í fyrsta sinn lagt til að stofnað verði sérstakt ráðuneyti umhverfismála. Sorp verði flokkað til endurnýtingar.

Í efnahagsmálum er kvennapólitísk sýn. Við ákvarðanir í ríkisfjármálum eigi ávallt að spyrja um áhrif á konur og fjölskyldu. Þessa nálgun þekkjum við úr kynjaðri hagstjórn. Hin hagsýna húsmóðir var ekki langt undan og minnt á að hún hagræði útgjöldum í samræmi við tekjur og eyði ekki um efni fram.

Í stefnuskránni 1991 var lagt til að Rannsóknarstofa í kvennafræðum fái nauðsynlegt fjármagn og komið verði á fót öflugum listaháskóla. Í stefnuskrá 1987 var lagt til að fæðingarorlof verði lengt í sex mánuði. Hér er bætt um betur og lagt til að fæðingarorlof verði níu mánuðir.

Áhersla er á að bæta stöðu húsmæðra. Í stefnuskrá 1987 var lagt til að heimilisstörf verði metin til jafns við starfsreynslu á vinnumarkaði. Hér er lagt til að þeim sem vinna við heimilisstörf verði veittur aðgangur að lífeyrissjóði.

Í sjávarútvegsmálum er það nýmæli að krafa er gerð um að 80% afla verði úthlutað til byggðarlaga og 20% aflans renni í sameiginlegn veiðileyfasjóð og verði til leigu.

Kvennalistinn er fyrsti pólitíski flokkurinn sem fjallar um rétt samkynhneigðra í stefnuskrá. Krafist er afnáms misréttis gagnvart þeim og tryggt að samkynhneigðir njóti lagalegra og félagslegra réttinda til jafns við gagnkynhneigða.

Einnig má finna tillögu um að ráðherrar gegni ekki þingmennsku, komið verði á stjórnarskrárdómstóli, stofnað embætti umboðsmanns barna og Ísland standi utan ESB.

Í stefnuskrá 1995 var krafa um að ofbeldismaðurinn verði fjarlægður af heimilinu sem var nýmæli.  Einnig er krafa um að ávallt sé lagt mat á áhrif aðgerða á umhverfi áður en í þær er ráðist og að nýbúum verði sköpuð skilyrði til að afla háskólamenntunar til jafns við aðra þegna þjóðfélagsins.

 
 

Ljósmyndir tengdar stefnumótunarvinnu

 

Skjöl tengd stefnu Kvennalista 1983 (PDF)

 

Blaðamannafundur um fyrstu stefnuskrá Kvennalista 1983