Upphafið

Reykjavíkurkonur stóðu fyrir fundi í Hamraborg 1, Kópavogi hinn 2. mars með áhugahópi um kvennalista í Reykjaneskjördæmi. Þær Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Guðrún Jónsdóttir, eldri, fluttu ræður. Samþykkt var einróma að vinna að undirbúningi fyrir kvennalista í kjördæminu. Eftir ræðurnar voru fjörugar umræður um stefnuskrá.

Hinn 6. mars stóðu Kvennalistakonur í Reykjavík fyrir fundi á Hallveigarstöðum frá kl. 10-18 til að ræða stefnuskrá framboðsins. Áhugakonakonur úr Reykjanesi fjölmenntu á fundinn og hittust sérstaklega kl. 14 til að ræða hugsanlegt framboð í Reykjanesi. Mikill áhugi reyndist fyrir að láta reyna á það. Það sem helst stóð í konum var; reynsluleysi í kosningabaráttu, vanþekking á stóru málunum, ekki var vitað um viðbrögð á Suðurnesjum, fjárskortur, húsnæðisleysi og síðast en ekki síst hvað konur þekktust lítið innbyrðis.

Niðurstaðan var að samþykkt var að bjóða fram. Innan við þrír mánuðir voru til stefnu og því þurfti að láta hendur standa fram úr ermum. Hafist var handa við að skipuleggja starfið, kannað var með tengilið á hverju svæði og ákveðið að halda fundi í Hafnarfirði, Suðurnesjum, Innri Njarðvík og víðar. Skipaður var blaðaútgáfuhópur (Sigrún Jónsdóttir, Anna Ólafsdóttir, Björnsson og Elín), stefnuskrárhópur (Guðrún Einarsdóttir og Þuríður Ingimarsdóttir), fjáröflunarhópur (Guðfinna Friðriksdóttir og Sigríður Auðunsdóttir) framkvæmdanefnd (Sigrún Jónsdóttir, Sigríður Hjaltadóttir, Guðný Guðmundsdóttir, Ingibjörg Guðmundsdóttir og Guðrún Gísladóttir) og uppstillinganefnd (Anna Ólafsdóttir Björnsson, Hulda, Elínborg Stefánsdóttir og Sigríður Sveinsdóttir).

Eins og í Reykjavík voru flestar konurnar reiðubúnar að sitja á lista en ekki í efstu sætunum. Eftir nokkra leit að konu í efsta sætið bárust böndin að Kristínu Halldórsdóttur sem þá var stödd í London. Haft var samband við hana og hún þurfti ekki að hugsa sig lengi um.

Eftir að búið var að finna konuna í efsta sætið og konurnar fóru að kynnast betur skapaðist mikil og góð stemmning. Fleiri konur komu til leiks og starfið varð sífellt öflugra og kraftmeira.

 

Kosningar 1983

Kvennalistinn bauð fram í þremur kjördæmum árið 1983, Reykjavík, Reykjanesi og á Norðurlandi eystra. Efstu sætin í Reykjanesi skipuðu Kristín Halldórsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir. Kvennalistinn fékk 7,2% atkvæða.

Hann fékk 5,5% atkvæða á landsvísu og þrjár þingkonur kjörnar, Kristínu Halldórsdóttur í Reykjanesi og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Guðrúnu Agnarsdóttur í Reykjavík.

Myndir 1983

Stærsti sigur Kvennalistans voru kosningaúrslitin í Alþingiskosningum 1987. Hann bauð fram í öllum kjördæmum og fylgið tvöfaldaðist, fékk 10% atkvæða á landsvísu og sex konur á þing.

Í Reykjanesi fékk Kvennalistinn 9,1% og eina þingkonu, Kristínu Halldórsdóttur. Í Reykjavík fékk hann 14% atkvæða og þrjár þingkonur, Guðrúnu Agnarsdóttur, Kristínu Einarsdóttur og Þórhildi Þorleifsdóttur. Á Norðurlandi eystra fékk hann 6,4% og eina þingkonu, Málmfríði Sigurðardóttur. Á Vesturlandi rúm 10% og eina þingkonu Danfríði Skarphéðinsdóttur.

Fyrir tíma Kvennalista, sem var stofnaður 1983, var hlutfall kvenna á Alþingi 5% en eftir kosningarnar 1987 var það orðið 21%. Þingkonur voru orðnar 13 en höfðu verið þrjár. Þessa breytingu litu Kvennalistakonur á sem mikinn sigur fyrir sig.

Myndir 1987

Skjöl (PDF) 1987

 

Kosningar 1991

Kvennalistinn átti á brattann að sækja í kosningum 1991. Úrslitin urðu þau að Kvennalistinn tapaði í öllum kjördæmum. Hann fékk 8,3% atkvæða á landsvísu og fimm þingkonur kjörnar.

Efstu sæti listans í Reykjaneskjördæmi skipuðu Anna Ólafsdóttir Björnsson og Kristín Sigurðardóttir. Kvennalistinn fékk 7% atkvæða í Reykjanesi og eina þingkonu, Önnu Ólafsdóttur Björnsson, í Reykjavík 12% atkvæða og þrjár þingkonur, þær Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Kristínu Einarsdóttur og Kristínu Ástgeirsdóttur.

Kvennalistinn jók mest fylgi sitt á Vestfjörðum eða um 2,5%, fékk 7,8% og þingkonan Jóna Valgerður Kristjánsdóttur settist á þing.

Þetta var í þriðja skipti sem Kvennalistinn bauð fram til Alþingis. Á þeim tíma hafði hlutfall kvenna á Alþingi farið úr 5% í 24% og þingkonum fjölgað úr 3 í 15.

Skjöl (PDF) 1991

Myndir 1991

 

Kosningar 1995

Kvennalistinn bauð fram í öllum kjördæmum árið 1995.

Kristín Halldórsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir skipuðu efstu sæti listans í Reykjanesi.

Kosningaúrslitin urðu mikil vonbrigði. Kvennalistinn tapaði 3,4% atkvæða, fékk 4,9% atkvæða á landsvísu og þrjár þingkonur kjörnar. Í Reykjanesi fékk hann 4,2% atkvæða og eina þingkonu, Kristínu Halldórsdóttur. Í Reykjavík fékk listinn 7% atkvæða og tvær þingkonur, Kristínu Ástgeirsdóttur og Guðnýju Guðbjörnsdóttur. Þó að kosningaúrslitin hafi valdið vonbrigðum má segja að stóri sigurinn hafi verið mikil fjölgun kvenna á Alþingi.

Skjöl (PDF) 1995