Vorið og sumarið 1981 hittust 50-70 konur reglulega til að ræða hugsanlegt framboð kvenna. Staða kvenna var algjörlega óásættanleg. Launamunur kynjanna mikill og lítil áhersla á velferðarmál. Leik- og grunnskólakerfið miðaðist við að konur væru heimavinnandi húsmæður, skóladagur stuttur og sundurslitinn, skólar tví- og þrísetnir. engin frístundaheimili og engar skólamáltíðir. Konur voru lítt sýnilegar þar sem ráðum var ráðið, valdaleysi kvenna var algjört

Um haustið hafði konunum í sumarhópnum fækkað og voru orðnar 12. Þær ákváðu að boða til borgarafundar á Hótel Borg, hinn 14. nóvember, til að kanna hug fólks til framboðs kvenna í sveitarstjórnarkosningum 1982. Konurnar boðuðu nýja hugmyndafræði, menningarfemínisma, og ný vinnubrögð í stjórnmálum. Fundurinn var lítið auglýstur enda ekkert fjármagn fyrir hendi til auglýsinga en daginn áður boðaði hópurinn til blaðamannafundar eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.

Þó að konurnar hafi fundið fyrir miklum áhuga fyrir framboði kvenna áttu þær ekki von á að yfir sex hundruð manns, aðallega konur, mundu mæta á fundinn og margir urðu frá að hverfa. Sumar konurnar voru þekkt andlit úr öðrum flokkum. Sjálfsagt hafa margar þeirra mætt til að ögra sínum flokkum því þær höfðu reynt á eigin skinni að þær komust ekkert áfram innan eigin flokks, enda nóg af körlum í fleti fyrir.

Kristín Ástgeirsdóttir blaðakona á Þjóðviljanum, Ásgerður Jónsdóttir kennari og Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri fluttu ræður. Fundarstjórar voru Sigríður Dúna Kristmundsdóttir mannfræðingur og Helga Sigurjónsdóttir kennari.

Mikil stemning skapaðist á fundinum og ræðurnar féllu í góðan jarðveg. Á eftir framsöguerindum gafst kostur á fyrirspurnum og sköpuðust miklar og líflegar umræður. Hin mikla orka og kraftur í salnum kveikti í konum. Yfirgnæfandi meirihluti fundargesta lýsti sig fylgjandi sérstöku framboði kvenna og samþykkt var að bjóða fram að vori.

Helgina sem fundurinn var haldinn hófst verkfall prentara og blöðin komu ekki út aftur fyrr en 25. nóvember. Í fjölmiðlum var því lítið fjallað um fundinn og engar myndir eru til af honum.

 
Skjöl er varða fundinn (PDF).