Kvennalistakonum var nóg boðið þegar sett voru bráðabirgðalög um frystingu launa haustið 1988. Fólk hafði mátt þola matarskatt, tvær gengisfellingar, afnám samningsréttar og nú átti að frysta laun. Einnig var því mótmælt að ráðgefandi nefnd til handa ríkisstjórninni, við lausn efnahagsvandans, var eingöngu skipuð körlum.

Hinn 27. ágúst var ákveðið að lesa yfir hausamótunum á Þorsteini Pálssyni forsætisráðherra fyrir framan Stjórnarráðið.

Útbúnir voru borðar með hinum ýmsu áletrunum og flaggað var fimm bleyjum með táknrænum áletrunum:

  • Of seint í rassinn gripið.
  • Þetta var bara slys.
  • Hver á að þrífa ósómann?
  • Beislum þann gráa.
  • Einnota ríkisstjórn.

María Jóhanna Lárusdóttir afhenti Þorsteini uppskrift af nýrri þjóðarköku og jafnframt var honum gefið kökukefli til að nota við baksturinn. Eftirfarandi tillögur Kvennalistakvenna, um hvað ríkisstjórninni beri að gera, voru lesnar yfir honum:

  • Beita lögum til að HÆKKA en ekki LÆKKA laun og hækka skattleysismörk til samræmis.
  • Afnema matarskattinn
  • Fjölga skattþrepum og stórbæta innheimtu og eftirlit
  • Skattleggja fjármagnstekjur og leggja á stóreignaskatt
  • Leggja niður lánskjaravísitölu og taka upp kauptaxtavísitölu
  • Frysta verðlag
  • 3% vexti
  • Sex tíma vinnudag
  • Stöðva hömlulaust innstreymi erlends fjármagns í gegnum kaupleigur og fjármagnsmarkaðinn
  • Endurskoða bankakerfið með það fyrir augum að einfalda það og draga úr yfirbyggingu
  • Burt með pólitískt kjörin bankaráð
  • Herða upplýsingaskyldu banka. Hverjir fá lán - gegn hvaða tryggingu. Veð er ekki nóg ef rekstrargrundvöll vantar
  • Endurnýta, setja reglur um einnota umbúðir.
 

Myndir frá mótmælunum

 

Bréf til Þorsteins Pálssonar (PDF)