Kvennaframboð og Kvennalisti voru hugsuð sem hreyfingar en ekki flokkar. Þetta voru hreyfingar með flatt grasrótarskipulag, mikla valddreifingu og beint lýðræði. Það var enginn formaður og starfið fór fram í hópum. Allir fundir voru opnir.

Á fundum var forðast atkvæðagreiðslur. Leitast var við að ræða málin þar til komist var að sameiginlegri niðurstöðu, „Consensus.“ Einnig var forðast hugtök eins og forysta og vald. Það var innbyggt í valddreifingarhugmyndina og grasrótarstarfið að engin mætti vera of leiðandi eða meira áberandi. Orðræðan um völd var jafnan í þá veru að það ætti að dreifa valdi. Það væri mikilvægt að fá vald til að framkvæma en ekki hafa vald yfir öðrum.

Landsfundir voru haldnir einu sinni á ári að hausti. Alls voru haldnir 17 landsfundir, hinn fyrsti 1983.

Vorþing voru haldin á vorin.

Samráð. Milli landsfunda voru haldnir samráðsfundir. Þeir voru haldnir eins oft og þurfa þótti, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Hver angi skipaði tvo fulltrúa í samráð. Fundir samráðs voru opnir eins og aðrir fundir Kvennalista. Endanleg ákvörðun á málefnum Kvennalista var í höndum landsfundar. Milli landsfunda var hún í höndum samráðs.

Angar. Innan kjördæmanna átta voru svo kallaðir angar. Innan hvers anga var framkæmdanefnd sem sá um að haldnir væru reglulega félagsfundir innan angans.

Sveitarstjórnarráð/borgarmálaráð var vettvangur samráðs og upplýsinga um sveitarstjórnarmál. Þar sátu konur sem áttu sæti í borgar- eða sveitarstjórnum.