Fundur á Hallveigarstöðum 1981 um starfið fram undan

Haldinn var opinn stefnumótunarfundur á Hallveigarstöðum eftir Hótel Borgar fundinn í lok nóvember. Yfir 150 konur mættu og skráðu sig í hópa um hugmyndafræðigrundvöll og helstu málaflokka. Kristín Jónsdóttir kynnti starfið fram undan og Valgerður Magnúsdóttir sagði frá framboðinu á Akureyri.

Í hópunum var orðið látið ganga til að tryggja að sem flestir tækju þátt í umræðunni og létu skoðun sína í ljós. Það var mikill baráttuhugur í konum og þær skynjuðu að þær væru að skapa eitthvað sögulegt.

Kosin var framkvæmdanefnd, sem í sátu Áslaug Ragnars, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Sigrún Sigurðardóttir, Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir og Helga Thorberg. Henni var ætlað að að vinna að undirbúningi að stofnun Kvennaframboðs. Einnig var kosið í fjáröflunarnefnd og kynningarnefnd.

Kvennaframboð tók Hótel Vík á leigu. Þar var mikið líf og fjör frá morgni til kvölds. Haldnir voru ótal fundir næstu mánuði og ár. Í janúar 1982 var opin ráðstefna um hugmyndafræðilegan grundvöll framboðsins. Skipað var í hópa sem ræddu fjórar spurningar; Hvers vegna kvennaframboð? Hver er tilgangur kvennaframboðs? Hvað eiga samtökin að heita? Og hver er afstaðan til þátttöku karla? Helga Kress, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Helga Jóhannsdóttir voru kosnar í samræmingarefnd til að vinna úr niðurstöðum hópanna og leggja fram drög að hugmyndafræðigrundvelli. Hann var síðan samþykktur með litlum breytingum um miðjan janúar.

 
 
Frambjóðendur Kvennaframboðs funda í sumarbústað í Mosfellsbænum 2. – 3. apríl 1982

Þegar búið var að samþykkja stefnuskrána og stilla upp á lista fyrir borgarstjórnarkosningarnar fóru frambjóðendur út úr bænum til að skipuleggja kosningabaráttuna og verkefnin framundan.

Almenn ánægja var með stefnuskrána sem  var fyrsta stefnuskrá pólitísks flokks sem tekur fyrst og fremst mið af fjölskyldunni. Áhersla var á að reynsla og menning kvenna verði metin sérstaklega sem stefnumótandi afl í þjóðfélaginu, að jafnrétti ríki til starfs og launa og að störf kvenna verði metin að verðleikum.

Báða dagana var hópavinna og meðal annars rætt; Hvað er þetta Kvennaframboð? Hvernig á að heyja kosningabaráttuna? Hvers vegna engir karlmenn á lista?

 
 
Stefnuskrár- og hugmyndafræðivinna á Hótel Vík
 
 
Kvennaathvarf - Neyðarathvarf

Ein af hugmyndum Sumarhópsins, sem var stofnaður 1981 til að undirbúa stofnun Kvennaframboðs, var að stofna neyðarathvarf eða kvennaathvarf fyrir konur sem væru beittar ofbeldi. Stofnaður var starfshópur um slíkt athvarf. Hópurinn komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að ekki væri skynsamlegt vegna málstaðarins að tengja athvarfið Kvennaframboði, málefnið höfði til kvenna óháð pólitískum skoðunum. Var því ákveðið að hann yrði sjálfstætt starfandi. Hópurinn boðaði til fundar í apríl 1982 og bauð til hans fulltrúum kvennasamtaka sem leiddi til þess að Kvennaathvarf var stofnað í Reykjavík hinn 1. júní 1982.

 
Myndir frá Hótel Vík