Aðdáendur Guðrúnar Halldórs

Er þingkonur voru eitt sinn á fundarferð norður í land fengu þær sér hressingu á hótelinu á Blönduósi. Tveir kraftalegir karlar komu strax aðvífandi. Jæja, hugsuðu kvenfrelsiskonurnar og datt helst í hug að þeir vildu segja þeim hvar Davíð keypti ölið og langaði lítið að lenda í þrasi svona í byrjun ferðar. Nei, aldeilis ekki, þarna voru komnir tveir sjómenn, fyrrum nemendur Guðrúnar Halldórsdóttur og föðmuðu hana og kysstu þannig að hún nærri týndist í faðmi þeirra.

Guðrún J. Halldórsdóttir lagði drjúgan skerf til að opna öðrum dyr til aukinnar menntunar og betra lífs, bæði í Lindargötuskólanum og við Námsflokka Reykjavíkur. Þetta hafði henni lánast, ekki síst vegna skilnings og samúðar með hlutskipti samferðafólks, kímnigáfu, fordómaleysis og hæfileika til að setja sig í annarra spor, vera jafningi. Það var aðalsmerki hennar. Guðrún naut velvildar og þakklætis margra sem hún hafði liðsinnt eins og sjá má af þessari sögu.

Guðrún Agnarsdóttir

0