Í fyrstu kosningabaráttu Kvennalistans 1983 auglýstum við að kvennalistakonur væru tilbúnar að mæta á vinnustaðafundi og í saumaklúbba til að kynna málstaðinn.
Einn saumaklúbbur pantaði okkur þegar í stað og við fórum nokkrar saman mjög stoltar þegar við bönkuðum upp á í íbúð á Rauðarárstíg á tilsettum tíma. Ungur þreytulegur karlmaður kom til dyra með barn í fanginu. Við spurðum hvort það væri ekki hér sem við ættum að mæta í saumaklúbb og nefndum nafn konunnar. ,,Hún er farin frá mér,“ svaraði hann mæðulega. ,,Og það er ykkur að kenna.“
Ég var nú ekki alveg á því að gefast upp og spurði hvort hann vissi kannski hvar klúbburinn yrði haldinn, fyrst hann væri ekki þarna. Hann svaraði engu og lokaði dyrunum. Mig hefur alltaf langað að vita hvernig fór.
Anna Ólafsdóttir Björnsson
áGú
2017