Stofnfundur Íslensk-lesbíska haldinn á Hótel Vík 1985

Myndin er tekin á stofnfundi kvennahóps Samtakanna ´78 Íslensk-lesbíska sem haldinn var á Hótel Vík árið 1985.

Það var alltaf mikið líf og fjör á Hótel Vík árin sem Kvennaframboð og Kvennalisti leigðu húsið. Kvennahópur Samtakanna ´78, Íslensk-lesbíska, sótti um skrifstofu þar í mars 1985. Lesbíur höfðu ekki fundið sína fjöl innan Samtakanna 78 og vildu verða hluti af kvennahreyfingunni. Tilgangurinn var að styrkja sjálfsmynd lesbía, efla femíníska vitund og gera þær sýnilegri og meira gildandi innan kvennahreyfingarinnar.

Það tók sinn tíma að samþykkja að Íslensk-lesbíska fengi inni á Víkinni. Gefum Elísabetu Þorgeirsdóttur orðið: „Það þurfti að taka beiðni okkar fyrir á nokkrum fundum í húsráði og var henni fyrst hafnað á þeirri forsendu að það myndi ekki vera gott fyrir Kvennalistann; það gæti komið óorði á hann að hafa lesbíur þarna inni. Það var eldri kona sem lét bóka þetta en svo skipti hún um skoðun og mér þótti mjög vænt um það. Hún þurfti bara að átta sig og hún sýndi okkur vináttu eftir að hún kynntist okkur. Hún var að kynnast lesbíum í fyrsta skipti, eins og fleiri…sú aðgerð að fá inni í Kvennahúsinu varð til þess að opna augu fleiri og minnka fordóma.“

Fordómar voru sannarlega til staðar í samfélaginu. Stofnun kvennaframboðanna fylgdi bylgja nýrra kvennasamtaka og mörg þeirra fengu aðstöðu á Víkinni ekki síst eftir að henni var breytt í kvennahús í janúar 1984. Má þar nefna Friðarhreyfingu íslenskra kvenna, Samtök kvenna á vinnumarkaði, Kvennaráðgjöfina, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna og Veru, blað Kvennaframboðs í Reykjavík og síðar Kvennalista.

Nöfnin á öllum félögum á Víkinni voru sett á glerið á útidyrahurðinni. Gefum Elísabetu orðið: „Okkur fannst rosalega flott að sjá nafnið okkar þar, fyrsta alvöru merkið um sýnileikann. En kona sem var sendill frá Alþingi þurfti oft að sendast með gögn á skrifstofu Kvennalistans og einhvern tímann í slíkri sendiferð hafði hún á orði að hún gæti varla stigið fæti inn í þetta hús. Nafnið Íslensk-lesbíska virtist valda henni þessum viðbjóði.“

Sjá frásögn Elísabetar Þorgeirsdóttur

 

0