Kvennalistakonur fóru í hringferð um landið í rútu árið 1984 til að afla framboðinu fylgi. Þær komu til Egilsstaða, glaðar og kátar og gistu á heimili Guðlaugar móður Steinunnar Bjargar Helgadóttur. Hún tók á móti okkur af einlægri gestrisni, virtist ekkert hafa fyrir því og um morguninn þegar við vöknuðum barst yndislegur pönnukökuilmur að vitum okkar. Við vissum ekki að hún hafði sofið undir eldhúsborðinu um nóttina og eftirlátið okkur rúmið sitt. Kvöldið áður höfðum við setið sáttar saman, allar í Kvennalistanáttkjólum og rætt um stöðu heimsbyggðarinnar, ekkert minna. Guðrún Agnars upplýsti stöllur sínar um dásamleg úrræði náttúrunnar á ögurstundu. Hún sagði þeim frá þurrkinum mikla á Englandi 1976 þegar hún bjó í London, heitasta sumar síðan mælingar hófust og það rigndi ekki vikum saman, ekki dropi úr lofti. Filippus drottningamaður hvatti fólk til að sturta bara einu sinni á dag niður í klósettinu og fara bara í sturtu, ekki baðker. Grasið visnaði, gróðurinn skrælnaði en eplatréð í garðinum hennar hafði aldrei borið eins mikinn ávöxt. ,,Eplatréð hugsaði, nú verð ég að eignast eins mörg fræ og ég mögulega get til að lifa áfram gegnum afkvæmin“ sagði Guðrún.
Þær stöllur voru andaktugar þangað til Helga Jóhannsdóttir, ljósmóðir Kvennalistans, sagði blíðlega og vinsamlega: ,,Já, Guðrún mín, alveg er ég viss um að þú veist hvernig eplatré hugsa“.
Guðrún Agnarsdóttir
NóV
2016