Hver á hvaða bíl?
Á hverju sumri fóru þingkonur Kvennalistans í ferðir vítt og breitt um landið til að hlusta á fólk, einkum konur, kanna hagi þeirra og óskir. Einnig að miðla upplýsingum um Kvennalistann og störf Alþingis. Ótal vinnustaðir voru heimsóttir og haldnir fundir með konum á staðnum.Við skiptumst á að heimsækja byggðarlögin og fórum oftast tvær og tvær saman. Þetta voru afar fróðlegar og skemmtilegar ferðir.
Þær Þórhildur Þorleifsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir fóru um Austurland í ágústlok 1990. Komu fyrst til Egilsstaða og beint á fund Kvennalistakvenna heima hjá Helgu Hreinsdóttur þar sem mjög vel var tekið á móti þeim. Konur höfðu meira að segja útvegað bíl sem þær stöllur gætu ekið á ferðum sínum. Þórhildur settist þegar undir stýri, sagðist alvanur bílstjóri sem kom reyndar á daginn. Þær gistu svo á Eiðum á heimili Helgu Gunnarsdóttur sem hafði farið í ferðalag með fjölskyldu sinni. Þórhildi lætur vel að vaka fram eftir og þær Guðrún sátu og ræddu um heima og geima fram undir lágnættið meðan dalalæðan liðaðist um fífusundin. Voru samt vaknaðar snemma og leiðin lá til Borgarfjarðar eystri. Þeim hafði verið sagt að bóndakona sem var í boðinu hjá Helgu daginn áður, Salóme, myndi fylgja þeim.
Þær komu því við á bænum hennar og þetta var hlédræg ung stúlka sýndist þeim, en hún var þarna húsfreyja og átti þar börn. Hún bauðst til að keyra bílinn, en Þórhildur hélt nú ekki að hún ætlaði stúlkunni að keyra þennan lánsbíl sem þeim Guðrúnu hafði verið trúað fyrir, þakkaði pent og stúlkan settist afturí. Það var svo ekið áleiðis til Borgarfjarðar í glampandi góðu veðri, framhjá kofanum þar sem Kjarval hélt til þegar hann málaði Dyrfjöllin og náttúruna þarna fyrir austan. Þegar við svo komum í Borgarfjörð eystri skelltum við okkur fyrst inn á gistihúsið að Borg í Bakkagerðisþorpi þar sem Ólína Halldórsdóttir, föðursystir Gyrðis Elíassonar rak matsölu og fengum okkur hressingu. Þar kemur það svo upp úr dúrnum að hægláta stúlkan sem var okkur samferða átti þennan bíl sem hún fékk ekki að keyra. Óhætt er að segja að þingkonurnar tvær urðu heldur langleitar.
Mjólkurskvettugangur
Önnur saga gerðist í heimsókn þeirra Þórhildar og Guðrúnar í leikskóla í einhverju plássinu þarna á Austurlandi. Þær sátu glaðbeittar í obbolitlum stólum við obbolítil borð með hnén hátt á lofti og ræddu málin við leikskólakennarana sem buðu upp á kaffi. Guðrún lýsti fjálglega hversu vel þeim Kvennalistakonum gengi að vinna saman og sem hún lýsir eindrægninni og samlyndinu með handasveiflu þeytir hún mjólkurkönnunni ofan í kjöltuna á Þórhildi sem átti sér einskis ills von en varð vel blaut. Ekki spillti þetta þó gleði þeirra og samveru í ferðinni.
Guðrún Agnarsdóttir
NóV
2016