Á níunda áratugnum stóð mikil ógn af kjarorkuvopnum og konur um allan heim létu mikið til sín taka í friðarmálum. Árið 1981 gengu þær frá Kaupmannahöfn til Parísar og árið eftir frá Stokkhólmi til Minsk í Sovétríkjunum. Friðargöngurnar voru mótmæli gegn kjarnorkuvopnum í austri og vestri, gegn staðsetningu nýrra kjarnorkuvopna í Evrópu og lýst var yfir stuðningi við kjarnorkuvopnalaus svæði.
Árið 1983 gengu konur frá New York til Washington. Tvær Kvennalistakonur voru með í för. Þær María Jóhanna Lárusdóttir, varaþingkona Kvennalistans og Guðrún Agnarsdóttir nýkjörin þingkona Kvennalista. Gangan kom til Washington hinn 26. ágúst 1983.
Þann sama dag ákváðu íslenskar konur að halda Friðarfund kvenna á Lækjartorgi til að taka þátt í baráttu kvenna víða um heim gegn kjarnorkuvopnum og fyrir friði í heiminum. Að fundinum stóðu Kvennaframboð, Kvennalisti og konur úr Framsóknarflokki, Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki og stjórn Fósturfélags Íslands. Ávörp fluttu Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, þingkona Kvennalista, séra Dalla Þórðardóttir, Sigrún Sturludóttir, Guðrún Helgadóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir. Kór Kvennalistans söng nokkur lög.
Uppfært 11. ágúst 2019.