Kvennaframboðskonum mislíkaði sú kvenfyrirlitning sem oft kom fram í máli borgarstjóra að þeirra mati. Kornið sem fyllti mælinn voru ummæli Davíðs Oddssonar borgarstjóra við krýningu á fegurðardrottningu Íslands á Broadway í júní 1985. Hann sagði eitthvað í þá veru, í sjónvarpsútsendingu frá keppninni, að ef þær stúlkur sem tækju þátt í fegurðarsamkeppni skipuðu efstu sæti Kvennaframboðs þá þýddi lítið fyrir karlana að bjóða sig fram í næstu kosningum.

Kvennaframboðskonum var ekki skemmt. Þeim fannst þetta gróf móðgun bæði við kvenkyns fulltrúa í borgarstjórn og stúlkuna sem hann var að krýna. Orð hans mátti skilja svo að fegurðin skipti konur öllu máli, vitsmunir minna. Í framhaldi af þessum ummælum ákváðu borgarfulltrúar Kvennaframboðs að velgja honum undir uggum.

Þær mættu sem fegurðardrottningar í borgarstjórn til að mótmæla því að borgarstjóri gerðist „opinber fulltrúi karlrembunnar og sýndi sinn innri mann með því að reyna að vera fyndinn á kostnað kvenna.“ Guðrún Jónsdóttir borgarfulltrúi, ungfrú meðfærileg og Magdalena Schram varaborgarfulltrúi, ungfrú spök, komu hvor á eftir annarri í ræðustól í síðkjólum með kórónu á höfði og þóttust ekkert skilja. Upp á pöllunum var föngulegur hópur baráttukvenna, klæddar í síðkjóla, Hjördís Hjartardóttir gékk skrefinu lengra og mætti í sundbol. Þetta voru konur sem „stóðu undir nafni“ eins og sjá má á borðum sem þær báru: ungfrú brosmild, ungfrú undirgefin, ungfrú ljúf, ungfrú síung, ungfrú samþykki o.s.frv.

Borgarstjóri sagði fátt og það fór ekki milli mála að honum mislíkaði verulega þessi uppákoma. Uppátæki kvennanna vakti mikla athygli og var fjallað um hana í öllum fjölmiðlum. Sjónvarpið ákvað að vera með umræðuþátt í beinni útsendingu hinn 11. júní um fegurðarsamkeppni. Fulltrúi Kvennalista í þættinum var María Jóhanna Lárusdóttir ein af fegurðardrottningunum sem mætti á pallana í borgarstjórn.

 

Myndir frá mótmælum Kvennaframboðskvenna í borgarstjórn

 

Gögn er varða fundinn í borgarstjórn (PDF)