Guðrún og Ingibjörg Sólrún reyndust öflugir fulltrúar Kvennaframboðs í borgarstjórn. Á kjörtímabilinu 1982-1986 fluttu þær um 130 tillögur, nánast engar voru samþykktar. Ef tillögurnar höfðu í för með sér viðbótarútgjöld fyrir borgarsjóð bentu þær á hvaðan mætti taka peninga til að framkvæma þær. Þetta voru nær óþekkt vinnubrögð.
Árlega fluttu þær að meðaltali 70 breytingartillögur við gerð fjárhagsáætlunar. Margar tillögur fluttu þær ítrekað, meðal annars um stóraukið framlag til byggingar dagvistarstofnana, að ólaunuð heimilisstörf yrðu metin til launa sem starfsreynsla og að endurmat færi fram á störfum kvenna hjá borginni. Við matið yrði gert ráð fyrir að umönnunarstörf fengju sama vægi við mat til launa og hefðbundin karlastörf.
Í fyrstu fjárhagsáætlun Sjálfstæðisflokks á kjörtímabilinu var framlag til byggingar dagvistarstofnana níu milljónir króna. Á áætlun ársins 1986 var það orðið 49,2 milljónir. Hækkunina má ugglaust rekja til þess að krafan um næg og góð dagvistarheimili hafði fengið aukið vægi með tilkomu Kvennaframboðs.
Ein af fyrstu tillögum Kvennaframboðskvenna í borgarstjórn var að kanna möguleika á að flytja flugvöllinn burt og reisa blandaða íbúðabyggð á svæðinu. Árið 1986 lögðu þær fram tillögu um kjarnorkuvopnalausa Reykjavík. Sjá nánar um tillögur þeirra hér að neðan.
Borgarmálaráð Kvennaframboðs fundaði einu sinni í viku. Í ráðinu sátu fulltrúar og varafulltrúar framboðsins í nefndum og ráðum borgarinnar. Ráðið var vettvangur fyrir stefnumótun. Konur deildu einnig reynslusögum af samskiptum sínum við karlana en í nefndastarfinu kynntust þær margvíslegum hindrunum og hroka frá þeim.
Fræðikonan Berit Ås hefur talað um hinar fimm drottnunaraðferðir karla og sagði tilgang þeirra að grafa undan sjálfstrausti kvenna og gera þær öðrum undirgefnar. Drottnunaraðferðirnar miði að því að gera konur ósýnilegar, hlægilegar, halda upplýsingum frá þeim og ala á sektarkennd. Kvennaframboðskonur reyndu þetta allt á eigin skrokk. Þeim fannst þær oft sniðgengnar, ekki virtar viðlits, ekki hlustað á þær og fundarmenn karlkenndir eins og þær væru ekki á staðnum.
Á fundi hinn 18. nóvember 1982 voru umræður um jafnréttismál og var tilefnið skýrsla Jafnréttisnefndar Reykjavíkur. Í umræðunni sagði Davíð Oddsson borgarstjóri að næsta fátt væri í skýrslunni sem menn vissu ekki áður. Vísaði hann til þess að í skýrslunni segi: „...að karlarnir vaski sjaldnar upp heima en konurnar, sem legið hefði fyrir um áratuga skeið. Flestir okkar eru nú þannig, karlarnir, að jafnvel þó að við hefðum vaskað upp svona tvisvar, þrisvar á 12 ára hjúskaparferli, þá myndum við ekkert vera að monta okkur af því.“
Þetta fyrsta borgarstjórnarkjörtímabil voru kvennaframboðskonur miklir aðgerðasinnar. Má þar nefna uppákomurnar um „Fegurðardrottningar í borgarstjórn“ og „Háu vöruverði mótmælt“ Sjá nánar „Aðgerðir og mótmæli“ undir „Grasrótin“.