Nú er skarð fyrir skildi, góða vinkona okkar, Sigrún, er fallin frá. Sigrún var virkur þátttakandi bæði í Kvennaframboðinu og í Kvennalistanum frá upphafi, skipaði sæti á framboðslistum beggja og veitti þar drjúgt liðsinni. Hæglát, yfirveguð, með hlýja og ljúfa nærveru, góða kímnigáfu. Var ávallt reiðubúin að taka þátt, leggja hönd á plóg, vera með, styðja. Lét aldrei sitt eftir liggja. Hafði ákveðnar skoðanir, fylgdi þeim eftir af festu og samkvæmt eigin gildismati. Sigrún var hávaxin og glæsileg kona, fallega búin, tíguleg og flest klæddi hana. Hún var vinur vina sinna og fjölskylduböndin voru traust og náin, þau bjuggu öll í sama húsinu, hún og Jónas og Silla dóttir þeirra og fjölskylda hennar og deildu húsnæðinu. Sigrún var fáguð og listræn, heimilið smekklegt og hlýlegt og það var ævinlega gefandi og notalegt að heimsækja hana. Ekki síður var það tilhlökkunarefni að fá boð í árlega kampavínsveislu þeirra mæðgna, Sigrúnar og Sillu, á Kambsveginum, en þangað voru vinkonur þeirra boðnar og komu með kampavínið, en mæðgurnar sáu um girnilegar og óviðjafnanlegar veitingar. Þar var alltaf ríkuleg gleði og kátína. Sigrún hafði ánægju af því að ferðast og fór oft á framandi slóðir, t.d. til Austurlanda nær. Eftir að veikindi hennar komu í ljós, hafa þær mæðgur og Torfi tengdasonur hennar, ferðast víða og notið þess að eiga góðar og gjöfular stundir saman, allt fram til hins síðasta. Fjölskyldan og vinir hafa staðið eins og skjólgarður um Sigrúnu í veikindum hennar. Við höfum hist, nokkrar Kvennalistakonur, reglulega í föstudagshádegi í tæplega þrjátíu ár, síðustu tuttugu árin á Jómfrúnni. Þar höfum við rætt málefni líðandi stundar og ofið saman vináttutengsl. Við höfum farið reglulega í stuttar ferðir á sumrin og haldið árleg jólaboð þar sem fleiri Kvennalistakonur komu, og seinni árin á heimilum hverrar annarrar.Sigrún var ein í þessum hópi, ómissandi, traust og góð vinkona og um síðustu jól var henni mikið í mun að bjóða okkur heim til sín um jólin. Og í síðasta sinn er við heimsóttum hana, sagðist hún endilega ætla að mæta á Jómfrúna næsta föstudag. Af því varð auðvitað ekki og við söknum Sigrúnar sárt, að henni er mikil eftirsjá, en mestur er missir Sillu, Torfa og fjölskyldu þeirra, systkina hennar og annarra ástvina. Við vottum þeim innilega samúð. Blessuð sé minning Sigrúnar Sigurðardóttur.
Danfríður Skarphéðinsdóttir
Guðrún Agnarsdóttir
Guðrún Ögmundsdóttir
Kristín Ástgeirsdóttir
Kristín Einarsdóttir
Kristín Jónsdóttir
Sigríður Lillý Baldursdóttir
DES
2017