Það var langt liðið á kosningabaráttuna árið 1987 og við starfskonurnar vorum orðnar nokkuð þreyttar. Magdalena Schram var kosningastjóri í Reykjavík og ég hélt utan um starfið á landsvísu. Það hafði verið mikill gleðskapur kvöldið áður. Fullir öskubakkar um allt hús, óhrein glös, matarleifar og gólfin voru grútskítug. Auk þess lá alls kyns kosningavarningur eins og hráviði um allt hús.
Ég mætti til vinnu daginn eftir partýið hálf framlág, Malla var ekki komin og aðkoman hræðileg. Mér hraus hugur við að hefja tiltekt enda ótal önnur brýnni og skemmtilegri verkefni sem biðu. Í því hringdi síminn. Það var Malla og henni var mikið niðri fyrir. Hún sagðist alls ekki komast í vinnuna strax það væru bara þannig aðstæður heima fyrir og nú yrði ég að sýna hvað í mér byggi. Þannig væri að frú Vigdís forseti hefði hringt í hana. Hún hefði tekið fram að hún gæti ekki kennt sig opinberlega við stjórnmálaflokka, en hún væri bara svo hrifin af Kvennalistanum að hún vildi koma í leynilega heimsókn til okkar. Forsetinn myndi koma eftir tvo tíma!
Nú var eins gott að halda ró sinni, bretta upp ermar, fara að vaska upp, taka til og þrífa húsið. Malla stakk upp á að ég pantaði snittur og keypti blóm til þess að hafa almennilega móttöku. Sjálf sagðist hún lofa að verða mætt á sama tíma og forsetinn.
Hvað átti ég að gera? Það var óhugsandi að bjóða forsetanum upp á vínlykt og óhreinindi og engar aðrar konur í kallfæri. Ég beit á jaxlinn og hófst handa. Ég hafði ekki unnið nema skamma stund þegar síminn hringdi aftur. Það var Malla. „Ég get ekki farið svona með þig“ sagði hún, „þú verður að fyrirgefa mér. Ég kom í vinnuna á undan þér og fannst ástandið svo ömurlegt að ég hrökklaðist út aftur.“ Síðan játaði Malla að Vigdís hefði ekki hringt. Það hefði bara verið svo dásamleg tilhugsun að koma í allt hreint og auk þess var hún svöng og gæti vel hugsað sér snittur og huggulegheit. Hún væri á leiðinni.
Guðrún Jónsdóttir yngri
áGú
2019