Afmælishátíð í Veröld, húsi Vigdísar, 13. mars. Kl. 14.00-17.00
Í vor eru 40 ár síðan boðnir voru fram kvennaframboðslistar til Borgarstjórnar Reykjavíkur og Bæjarstjórnar Akureyrar. Þeir mörkuðu söguleg tímamót í pólitískri baráttu kvenna fyrir auknu jafnrétti. Dagvistarmál barna voru í algjörum ólestri, skóladagur sundurslitinn og enginn hádegisverður í skólum. Launamisrétti var ótrúlegt og störf kvenna í umönnunarstéttum voru gróflega vanmetin. Umhverfisvernd var fjarlægur draumur og fjörur borgarinnar skreyttar marglitum klósettpappír. Fjarvera kvenna í áhrifastöðum í þjóðfélaginu var áberandi enda algjör karlaslagsíða hvert sem litið var.
Það var löngu tímabært að gera hreint í borgarstjórn og koma með nýjar áherslur inn í stjórnmálin þar sem velferðarmál, kvenfrelsi, jafnrétti, lýðræði, þjónusta við fjölskyldurnar og umhverfismál voru í öndvegi.
Í maí 1982 var gengið til kosninga og kvennaframboðin bæði á Akureyri og í Reykjavík fengu tvo fulltrúa kjörna.
Hvað gerðist í framhaldinu? Hver var árangur kvennaframboðanna? Hvernig tókst þessi tilraun til að velta um stólum í valdakerfinu? Hver er staðan nú?
Mætum öll á afmælishátíð Kvennaframboðs, sunnudaginn 13. mars í Veröld – húsi Vigdísar frá kl. 14.00 til 17.00. Hvaða mál brenna á konum 40 árum eftir að hafist var handa við að koma konum þangað sem ákvarðanir eru teknar? Brugðið verður á leik með söng, gamanmálum og frásögnum. Kvennaframboðið var starfandi í borgarstjórn 1982-1986 en þá tók Kvennalistinn við.
Hér má skoða myndir frá þessum tíma.
https://kvennalistinn.is/kvennaframbodid-myndir/
MAR
2022