Á þeim 17 árum (1982-1999) sem Kvennaframboð og Kvennalisti áttu sæti í sveitarstjórnum og á þingi náðist mikill árangur í baráttumálum framboðanna.
Þeim tókst að koma stefnumálum sínum af jaðrinum og inn á miðjuna. Þær gjörbreyttu umræðunni varanlega og komu málum á dagskrá sem höfðu legið í þagnargildi á Alþingi og í samfélaginu. Má þar nefna klám, kynferðislegt ofbeldi sem og annað ofbeldi gegn konum og börnum.
Kvennaframboðið átti frumkvæði að því að Kvennaathvarf var stofnað 1982 og Kvennalisti átti þátt í stofnun Neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðisafbrota.
Kvennalistinn var fyrsta pólitíska aflið sem studdi mannréttindabaráttu samkynhneigðra meðal annars með sérstökum kafla í stefnuskrá um réttindi þeirra.
Flutt voru frumvörp um lengingu fæðingarorlofs kvenna sem og sérstakt fæðingarorlof fyrir karla. Einnig voru fluttar tillögur um dagvistar- og skólamál.
Konurnar voru friðarsinnar, vildu leggja niður hernaðarbandalög, draga úr kjarnorkuvígbúnaði og auka friðarfræðslu.
Umhverfis- og náttúruverndarmál skipuðu mikilvægan sess og þingkonur Kvennalistans fluttu meðal annars fyrsta frumvarpið um stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis. Þær vöktu athygli á möguleikum ferðaþjónustu sem framtíðaratvinnugreinar og fluttu tillögur um úrbætur á ferðamannastöðum í því skyni að vernda náttúruna og tryggja sjálfbærni. Þær voru á móti stóriðju, litu á hana sem gamaldags og úreltan atvinnukost sem valdi mengun og spilli náttúrunni.
Þær mótuðu tillögur um stjórn fiskveiða sem var ætlað að tryggja raunverulegan eignarrétt þjóðarinnar á auðlindum hafsins og stuðla að meira atvinnuöryggi fiskvinnslufólks, aðallega kvenna, í heimabyggð. Þær hugðust ná þessum markmiðum með því að tengja úthlutun fiskveiðikvóta við byggðarlög eftir ákveðnum reglum, fyrir ákveðið gjald.
Hlutfall kvenna í borgarstjórn fór úr 20% í 53,3%, á þremur kjörtímabilum Kvennaframboðs og Kvennalista (1982-1994), og konum fjölgaði úr þremur í átta af 15 fulltrúum. Á landsvísu rúmlega þrefaldaðist hlutfall kvenna í sveitarstjórnum fór úr 6% í 25%.
Hlutfall kvenna á Alþingi rúmlega fjórfaldaðist. Fór úr 5%, þegar Kvennalistinn bauð fram 1983, í 25% þegar Kvennalistinn bauð fram í síðasta skipti 1995. Fjöldi þingkvenna fór á sama tíma úr 3 í 16.