Eftir miklar umræður og ágreining um hvort bjóða ætti fram til Alþingis var samþykkt, á félagsfundi 19. febrúar 1983, eftirfarandi tillaga að fréttatilkynningu sem Magdalena Schram, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Elísabet Guðbjörnsdóttir sömdu: „Félagsfundur, sem er æðsta vald í málefnum Samtaka um kvennaframboð, tók þá ákvörðun eftir langvarandi umræður, að samtökin sem slík myndu ekki standa að framboði til Alþingis í komandi kosningum. Þessa ákvörðun samtakanna ber hins vegar ekki að skilja sem svo, að þau hafni þingframboði sem leið í baráttunni fyrir bættri stöðu kvenna í þjóðfélaginu.“
Þar með fengu þær konur sem voru hlynntar framboði stuðning Kvennaframboðs. Þannig lauk snarpri og erfiðri umræðu um alþingisframboð með samkomulagi um að þær konur sem væru hlynntar framboði færu sínu fram án þess að um beinan aðskilnað væri að ræða.
Ferlið hafði verið erfitt og vafamál hvort nokkur sigurvíma fylgdi því að verða ofan á í atkvæðagreiðslunni, fremur tregi. Fullyrða má að hvaða skoðun sem konur höfðu þá hörmuðu þær þessi átök. Engin vildi klofning og allar vildu reyna til þrautar að komast að sameiginlegri niðurstöðu.
Ferlið er athyglisvert fyrir margra hluta sakir. Þrisvar sinnum varð niðurstaðan sú í skoðanakönnunum að meirihlutinn var andvígur framboði til Alþingis. Í flestum tilvikum hefði það þótt lýðræðislegt að sú niðurstaða stæði. Kristín Halldórsdóttir kemst svo að orði um þennan atburð:
„Í þessu tilviki, og reyndar mörgum öðrum, hefur það sýnt sig að konur í þessari hreyfingu hafa annan skilning á málum nefnilega þann að meirihlutinn hafi engan sjálfkrafa rétt til þess að þvinga einhverri niðurstöðu upp á minnihlutann. Þess vegna eyddu þær oft miklum tíma í að ræða málin fram og aftur til þess að reyna að ná samstöðu og ef það gékk ekki þá var niðurstaðan sú að leggja ekki stein í götu þeirra sem af sannfæringu vilja fara sína leið.“
Boðað var til opins borgarafundar á Hótel Borg í lok febrúar 1983 undir yfirskriftinni Kvennalisti til Alþingis.
Borgin fylltist af fólki og „Stemmningin var stórkostleg og ljóst að ekki yrði aftur snúið“ var mat Kristínar Halldórsdóttur eftir fundinn. Guðrún Agnarsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir fluttu ræður, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir kynnti fyrstu drög að stefnu Kvennalista til Alþingis, Elín G. Ólafsdóttir og Kristín Jónsdóttir voru fundarstjórar.
Í kynningu Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur kom fram að undirbúningshópurinn hygðist byggja stefnu sína í landsmálum á sömu hugmyndum og lagðar voru til grundvallar Kvennaframboði til borgarstjórnar 1982. Síðan kynnti hún drög að stefnu Kvennalista í þeim málaflokkum sem lágu fyrir í drögum. Má þar nefna valddreifingu, fræðslumál, fæðingarorlofsmál, efnahagsmál og friðarmál. Fundurinn samþykkti að bjóða fram í komandi kosningum. Heillaóskaskeyti barst frá Kvennaframboði og var því fagnað með lófataki. Sjá hér að neðan skjöl frá fundinum.