Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sat í borgarstjórn fyrstu tvö árin. Í samræmi við útskiptaregluna fór Elín G. Ólafsdóttir inn á miðju kjörtímabili þegar Ingibjörg Sólrún hafði setið í borgarstjórn í sex ár.

Í borgarstjórn ríkti andi átakastjórnmála. Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Davíðs Oddssonar réð þar lögum og lofum. Flokkurinn lagðist gegn nær öllu sem minni hlutinn lagði til. Stundum höfðu Kvennalistakonur það á tilfinningunni að þær eyðilegðu mál með því að bera þau upp því tillögur þeirra voru nær alltaf felldar eða svæfðar. Stundum báru Sjálfstæðismenn upp sömu tillögur ári síðar og voru þær þá ævinlega samþykktar.

Við umræðu um fjárhagsáætlun á kjörtímabilinu kom minni hlutinn árlega með fjöldann allan af breytingartillögum. Af um 70 breytingartillögum 1986 voru tvær samþykktar. Önnur var um hálft stöðugildi Sóknarstarfsmanns fyrir þjónustuíbúð aldraðra og hin um styrk til Félags áhugamanna um íþróttir aldraðra.

Af tillögum sem lagðar voru fram 1988 má nefna tillögu um að byggja nýtt hjúkrunarheimili, kaupa leiguhúsnæði, koma unglingahúsi á laggirnar í miðborg Reykjavíkur, gera umbætur á ferðum og rekstri strætisvagna og fjölga ferðum, reisa nýjan skóla í Hamrahverfi í Grafarvogi og gera tilraun með að reka dagheimili, skóladagheimili og grunnskóla undir sama þaki. Einnig voru tillögur um að vinna að fegrun umhverfis og útivistarsvæða í samvinnu við íbúasamtök.

Tillaga minnihlutans, um að gera tilraun með að leggja gúmmíhellur á nokkur leiksvæði dagvista og skóla í borginni, var eina tillagan sem var samþykkt.

 
Skjöl
 
Elín Ólafsdóttir tekur við af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í borgarstjórn 1988