Þó að kosningabaráttan hafi ekki reynst kostnaðarsöm þurfti að huga að fjáröflunarleiðum bæði í kosningunum og til framtíðar.
Fyrir jólin 1981 var seldur jóladrykkur á götum úti. Heit berjasaft með rúsínum, kanil og öðru góðgæti var seld úr stórum mjólkurbrúsa sem ekið var um í barnavagni. Drykkurinn vakti mikla lukku og athygli og oft safnaðist saman hópur fólks til að hita sér á berjasaft í kuldanum og ræða málin. Grunur var farinn að leika á að drykkurinn væri áfengur ef ekki göróttur. Sölunni lauk með banni lögreglunnar þar sem kvartanir höfðu borist. Í blöðunum birtust fregnir af því að kvennaframboðskonur væru grunaðar um „sprúttsölu“ í miðbænum.
Árið 1982 voru tvö happdrætti. Annars vegar listaverkahappdrætti þar sem 14 listakonur gáfu listaverk eftir sig. Hins vegar happdrætti með hinum ýmsu vinningum. Miðarnir seldust grimmt út á fyrsta vinninginn sem var „gönguferð um hálendið fyrir einn með Herði.“
Póstkortasería með listaverkum eftir níu myndlistarkonur reyndist einnig vinsæl.
Veggspjald, eftir Svövu Björnsdóttur myndlistarkonu vakti mikla lukku. Það var af þybbinni konu krjúpandi á hnjánum við að skrúbba gólf undir yfirskriftinni: „Hárrétt stelpur gerum hreint í borgarstjórn.“ Erlendir blaðamenn, sem sáu veggspjaldið upp á vegg á Víkinni, höfðu á orði að þetta væri ekki staðalímynd af konu á framabraut.
Hildur Kjartansdóttir hannaði og framleiddi slæður.
Hefðbundnar fjáröflunarleiðir kvenna voru einnig notaðar, selt kaffi og kökur, haldnir flóamarkaðir og blóm seld á götum úti.
Fastar tekjur voru félagsgjöld. Einnig voru stuðningsmenn framboðsins hvattir til að greiða 50 krónur í mánaðargjald fyrir rekstur skrifstofu, síma, og laun starfsmanns.
Eftir að konur fóru að starfa í nefndum á vegum borgarinnar var samþykkt að 10% af nefndarlaunum rynnu til hreyfingarinnar.
Hver fjáröflun gaf ekki mikið í aðra hönd en kvennalistakonur voru hagsýnar húsmæður sem eyddu ekki um efni fram.