Á tímum óðaverðbólgu og þjóðarsáttar gaf Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra þjóðinni það sparnaðarráð að hafa oftar grjónagraut í matinn, hann væri bæði hollur og góður. Kvennalista- og Kvennaframboðskonur voru fljótar að bregðast við þessari áskorun og boðuðu til mótmæla 8. mars 1984 á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.
Mikill fjöldi mótmælenda hittist fyrir utan Hótel Vík, vopnaðir pottum, pönnum, sleifum, kröfuspjöldum og dreifibréfum. Gengið var frá Víkinni suður Aðalstræti að Alþingishúsinu með viðeigandi pottaglamri og slagorðahrópum. Stutt stopp var gert fyrir framan hið háa Alþingi þar sem dreifiritum var dreift og búsáhöld barin.
Gangan hélt síðan austur Austurstræti og stoppaði fyrir framan verslunina Víði. Hluti af hópnum fór inn í verslunina. Þar var keypt hráefni í ráðherragrautinn víðfræga. Guðrún Jónsdóttir borgarfulltrúi Kvennaframboðs fór fyrir hópnum og þegar kom að því að borga útskýrðu hún kurteislega stöðu kvenna í launamálum og kvaðst því miður ekki vera borgunarmanneskjur fyrir meira en 2/3 af hráefninu því meðaltekjur kvenna væru aðeins 2/3 af launum karla. Viðbrögðin voru misjöfn meðal viðskiptavina og afgreiðslufólks. Flestir sýndu þessu skilning og tóku jafnvel undir kröfurnar með tilheyrandi hrópum og köllum. Verslunarstjórinn var ekki jafnhrifinn og lét kalla til lögreglu. Dágóð stund fór í samninga sem skilaði litlum árangri.
Þessari búsáhaldabyltingu lauk með því að viðskiptavinir skutu saman í einn grautarskammt. Þá var þrammað aftur niður á Alþingi til að gefa forsætisráðherranum, Steingrími Hermannssyni, hráefnið. Hann reyndist vant við látinn og fjármálaráðherrann, Albert Guðmundsson, tók við hráefninu og lagði við drengskap sinn að koma því til Steingríms. Uppátækið vakti mikla athygli og fjölmiðlaumfjöllun.