Efnahagsleg hagsæld eftir seinna stríð, aukin starfsmenntun kvenna og getnaðarvarnapillan olli því að konur streymdu út á vinnumarkaðinn. Á sama tíma höfðu hugmyndir um stöðu og hlutverk kvenna lítið breyst sem og hefðbundin verkaskipting á heimilum.

Konur urðu fyrirvinnur við hlið karla þótt þær væru ekki viðurkenndar sem slíkar. Þær önnuðust börn og bú sem var talin þeirra aðalvinna en launuð vinna aukastarf. Lítill pólitískur vilji var til að auðvelda konum vinnu utan heimilis á sama tíma og vaxandi þörf var fyrir vinnuframlag þeirra. Pólitískt lag var því fyrir framboði kvenna.

Á árunum 1960–1980 rúmlega þrefaldaðist atvinnuþátttaka giftra kvenna. Árið 1981 var atvinnuþátttakan 64%.

Pólitískt meðvitaðar konur af 68 kynslóðinni fundu sig ekki í neinum stjórnmálaflokki og upplifðu sig sem pólitíska munaðarleysingja. Fullreynt var að konur gætu aukið völd sín og áhrif innan flokkakerfisins.

Tvöfalt vinnuálag, mikill launamunur og lítil áhersla á velferðarmál ásamt eftirfarandi þáttum höfðu mikil áhrif á stofnun Kvennaframboðs:

Leik- og grunnskólakerfið miðaðist við að konur væru heimavinnandi húsmæður. Í Reykjavík var staðan sú að:

  • 8% barna höfðu aðgang að heilsdagsvistun. Einstæðir foreldrar og námsmenn nutu forgangs, en dagheimilispláss dugðu ekki fyrir þau börn.
  • 30% barna höfðu aðgang að dagheimilum hluta úr degi.
  • 2% nemenda, 7–10 ára, höfðu aðgang að skóladagheimili utan skólatíma.
  • Skóladagur var stuttur og sundurslitinn, skólar tví- og þrísetnir og engar skólamáltíðir.

Valdaleysi kvenna

  • Konur voru lítt sýnilegar í stjórnmálum.
  • Konur voru ekki þar sem mikilvægar ákvarðanir voru teknar.
  • Konur höfðu ekki aðgang að fjölmiðlum.
  • Konur voru 6% kjörinna fulltrúa í sveitastjórnum árið 1978 á landsvísu. Hlutfallið var 20% í Reykjavík sem er þó nokkuð lægra en 1908 þegar konur buðu fram sérstakan kvennalista og fengu 26,7% atkvæða.
  • Þrjár konur sátu á Alþingi af 60 þingmönnum árið 1983 þegar Kvennalisti bauð fram. Frá upphafi höfðu aðeins 12 konur setið á þingi.
  • Engin kona var í ríkisstjórn.
  • Hlutfall kvenna var 7% í stjórnum, nefndum og ráðum ríkisins árið 1980.
  • Stjórnmálaflokkum var nær eingöngu stjórnað af hópi karla sem setti leikreglur á sínum forsendum en tóku ekki mið af reynsluheimi kvenna.

Kvennafrídagurinn og kjör Vigdísar hafði sín áhrif á framboð kvenna. Hinn 24. október 1975, þegar 90% kvenna lögðu niður störf lamaðist atvinnulífið að mestu. Aðgerðin efldi sjálfsvitund kvenna, þær skynjuðu styrk sinn sem og hina miklu kvennaasamstöðu þvert á stjórnmálaskoðanir og stöðu.

Konur eignuðust sterka fyrirmynd þegar Vigdís Finnbogadóttur var kjörin forseti 1980, sem jók þeim kjark og þor.

(Textinn byggir á bók Kristínar Jónsdóttur: „Hlustaðu á þína innri rödd.“ Kvennaframboð í Reykjavík og Kvennalisti 1982–1987)

 

Skjöl er varða upphafið. (PDF)