Konur höfðu vaðið fyrir neðan sig fyrir kosningarnar 1991. Þegar á árinu 1990 var byrjað að endurskoða stefnuskrána. Sjá má vissar áherlsubreytingar. Í stað þess að leggja áherslu á sameiginlega reynslu og samstöðu kvenna var áherslan á margbreytileikann. Einnig voru fjórir nýir kaflar í stefnuskránni sem fjalla um barnavernd, stjórnkerfið, málefni samkynhneigðra og Efnahagsbandalagið.
Kvennalistinn átti á brattann að sækja og kosningabaráttan ekki eins kraftmikil og verið hafði. Úrslit kosninganna urðu þau að Kvennalistinn tapaði í öllum kjördæmum. Hann fékk 8,3% atkvæði á landsvísu og fimm þingkonur kjörnar. Tapaði þingsæti á Norðurlandi eystra og Vesturlandi.
Í Reykjavík fékk Kvennalistinn 12% atkvæða og þrjár þingkonur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kristín Einarsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir settust á þing í Reykjavíkurkjördæmi.
Kvennalistinn jók mest fylgi sitt á Vestfjörðum eða um 2,5%, fékk 7,8% og þingkonan Jóna Valgerður Kristjánsdóttur settist á þing. Í Reykjaneskjördæmi fékk Kvennalistinn 7% atkvæða og eina þingkonu, Önnu Ólafsdóttur Björnsson.
Þetta var í þriðja skipti sem Kvennalistinn bauð fram til Alþingis. Á þeim tíma hafði hlutfall kvenna á Alþingi farið úr 5% í 24% og þingkonum fjölgað úr 3 í 15.
Að kosningum loknum mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur Viðeyjarstjórnina.