Þegar Kvennaframboð bauð fram 1982 var það hugsað sem sértæk eða tímabundin aðgerð. Miklar umræður urðu innan Kvennaframboðs um hvort bjóða ætti fram til Alþingis árið eftir. Meiri hluti kvenna í Kvennaframboði hafnaði því sem leiddi til þess að Kvennalisti var stofnaður 1983 og bauð fram til Alþingis.

Kjarni þeirra Kvennaframboðskvenna sem voru mótfallnar Alþingisframboði voru einnig andvígar framboði til borgarstjórnar 1986. Var það úr að Kvennalistinn tók við kyndlinum og bauð fram í borgarstjórnarkosningunum.

Öllum Kvennalistakonum gafst tækifæri til að hafa áhrif á framboðslistann með því að tilnefna 5-10 konur. Uppstillinganefnd tók síðan mið af skoðanakönnuninni við röðun á lista sem félagsfundur þurfti síðan að samþykkja. Efstu sætin skipuðu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Elín G. Ólafsdóttir og Kristín Blöndal. Kicki Borhammer, sænsk kona sem búsett var á landinu, skipaði 15. sæti listans. Hún er að öllum líkindum fyrsti erlendi ríkisborgarinn í framboði til borgarstjórnar.

Kosningabaráttan var lífleg. Útimarkaðir, söngur á Lækjartorgi og víðar um bæinn. Gefið var út sérstakt kosningablað sem var dreift í öll hús í Reykjavík. Mikið var farið á vinnustaðafundi og stefnuskrá og dreifiritum dreift um alla borg. Seldir voru happdrættismiðar til að standa undir kostnaði af kosningabaráttunni.

Kosningahátíð fyrir fjölskylduna stóð allan daginn í Sóknarhúsinu hinn 25. maí. Dagskráin var blanda af kvennapólitík, upplestri, leikþáttum og söng. Einnig var leiksmiðja, tónsmiðja og myndsmiðja fyrir börn.

Vinstri meirihlutinn hafði árið 1978 fjölgað borgarfulltrúum í Reykjavík úr 15 í 21 en Sjálfstæðismenn fækkuðu þeim aftur í 15 þegar hann komst til valda 1982. Var því nokkuð ljóst að Kvennalistinn mundi aðeins fá einn fulltrúa.

Í kosningunum 1982 hafði Kvennaframboð fengið 10,9% atkvæða og tvo borgarfulltrúa. Í kosningunum 1986 fékk Kvennalisti 8,1% atkvæða og einn borgarfulltrúa. Hlutfall kvenna í borgarstjórn fór úr 38,1% í 40% í kosningunum og hlutfall kvenna í sveitarstjórnum á landsvísu fór úr 12% í 19%.

Kvennalisti bauð fram í Hafnarfirði, fékk 4,5% atkvæða og engan fulltrúa. Hann bauð einnig fram á Selfossi, fékk 10,9% atkvæða og einn fulltrúa í bæjarstjórn, Sigríði Jensdóttur og fór í meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokk, Alþýðuflokk og Framsóknarflokk.

 
Aðdragandi og upphaf kosningabaráttu
 
Myndir
 
Framboðslisti 1986
 
Ræður og greinar
 
Dreifirit og fréttatilkynningar