Kvennaframboð hafði mikil áhrif á kosningabaráttuna þegar það bauð fram í fyrsta skipti 1982. Beðið var með eftirvæntingu eftir framboðslistanum. Athygli vakti að nánast engin þekkt andlit úr stjórnmálum eða opinberu lífi voru á listanum.
Eins og sjá má á ljósmyndum hér að neðan var kosningabaráttan óhefðbundin, lifandi og skemmtileg. Haldnir voru hverfafundir, Peysufatasöngsveitin söng og keyrt var um bæinn á blómum skrýddum pallbíl.
Kosningaúrslitin urðu þau að Kvennaframboð fékk 10,94% atkvæða og þær Guðrún Jónsdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem skipuðu efstu sætin, settust í borgarstjórn. Fyrsti varaborgarfulltrúi var Magdalena Schram.
Stóri sigurinn var þó að hlutfall kvenna í borgarstjórn tæplega tvöfaldaðist. Hækkaði úr 20% í 38,1% og hlutfall kvenna í sveitarstjórnum á landsvísu tvöfaldaðist, fór úr 6% í 12%. Aðrir flokkar höfðu séð sitt óvænna og sett konur ofar á sína lista.
Á þeim þremur kjörtímabilum sem Kvennaframboð og Kvennalisti (1982-1994) sátu í borgarstjórn fór hlutfall kvenna úr 20% í 53,3%. Á landsvísu hækkaði hlutfallið í sveitarstjórnum úr 6% í 25%. Á sama tíma fjölgaði konum í borgarstjórn úr þremur í átta.
Kvennalistinn bauð einnig fram á Akureyri og fékk 17,4% atkvæða, tvo fulltrúa og myndaði meirihluta ásamt Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi.
Sjá nánar gögn hér að neðan