Ég var beðin að segja nokkur orð sem sonur kvenréttindakonu í tilefni af afmæli Kvennalistans.

Ég hef alltaf litið upp til mömmu minnar og tel mig lánsamasta son í heimi, en það hefur ekki alltaf verið auðvelt að eiga kvenréttindakonu sem mömmu. Byrjum á raunum mínum sem barn.

Í minningunni var ég alltaf umkringdur konum. Konum sem höfðu alltaf um eitthvað að tala, höfðu miklar hugsjónir, hlógu hátt og voru bæði klárar og skemmtilegar. Ég lifði mig inn í þetta og fannst ekkert skipta meira máli en að rétta hlut kvenna.

Ég man að vinir mínir voru ekki jafn eldheitir baráttumenn. Ég hafði á tilfinningunni að kvenréttindabarátta væri ekki efst í huga þeirra. Man ekki eftir að neinn vina minna hafi gert grín að mér eða mömmu minni en fáir skildu hvernig það var að vera eldheitur fyrir kvenréttindum, og jafnvel óska þess að vera ekki karlkyns, sem ég gerði oft. Ef Kvennalistinn fékk ekki nógu góða kosningu skildi ég ómögulega af hverju og var gjörsamlega eyðilagður yfir að meirihluti fólks á Íslandi vildi ekki að öllum liði vel og grunaði að flestir væru i eðli sínu vondar manneskjur.

Ég man líka þegar ég var í barnaskóla að þá spurði ógnvænlegur unglingur hvort mamma mín væri rauðsokka. Þetta var áður en ég vissi  hvað rauðsokka var, en miðað við hvernig hann spurði vissi ég að þetta var eitthvað slæmt. Ég vissi að mamma ætti einhverja rauða sokka í sinni sokkaskúffu en ég neitaði því staðfastlega að mamma væri rauðsokka. Ég held að þetta hafi verið í eina skiptið sem ég afneitaði mömmu minni sem kvenréttingakonu, en mín afsökun er að ég vissi ekki um hvað verið var að tala. Ef þú ert að hlusta mamma þá segi ég bara fyrirgefðu, ég mun leiðrétta þetta ef ég rekst á náungann aftur.

Hugsjónakrísa mín hélt áfram á unglingsárunum því konurnar í kringum mig voru ennþá að tala um að breyta heiminum. Ef vinir mínur töluðu um hrikalegt óréttlæti heimsins þá fólst óréttlætið í því að þeirra fótboltalið tapaði í síðasta leik. Við vorum eflaust of sjálfhverfir eins og aðrir unglingar til að hafa áhyggjur af framtíðar dætrum okkar. Mér og vinum mínum til varnar vil ég segja að sem barn og unglingur upplifði ég aldrei neitt annað en að þeir sem ég umgékkst voru sammála um að allir ættu að hafa sömu réttindi áháð kyni. Það hefur fengið mig til að velta fyrir mér hvað veldur þá því óréttlæti sem konur verða fyrir. Erfitt er að útskýra það og eflaust engin ein skýring. Þið vitið það eflaust betur en ég.

Vinum mínum hefur alltaf fundist mamma mín frábær eins og mér. En það er eitthvað í menningu unglingsstráka sem rýmar stundum ekki við kvenréttindi. Sem unglingur upplifði ég oft að það var gert lítið úr stelpum og þær voru flokkaðar eftir útliti og svo framvegis. Ég held að það hafi með óöryggi að gera að setja konur á lægri stall. Á unglingsárum er erfitt að nálgast og reyna við stelpu sem jafningja. Ef stelpan er ekki jafningi þá er auðveldara fyrir okkur strákana að nálgast hana, hugsanlega taka strákar stelpur niður til að upphefja sjálfan sig, í von um að hún líti upp til þeirra og hafni þeim ekki.

Það versta er ef sama mynstrið heldur áfram þegar farið í samband. Þú nærð yfirhöndinni í sambandi ef þér tekst að gera maka þinn óöruggan. Sem karl gefur þú í skyn að þú getir auðveldlega náð í aðra konu. Eða gefur í skyn að þú getir nú gert þetta og hitt betur en konan. Þetta smitast yfir í vinnuna, strákar halda að þeir geti gert hlutina betur en konur. Þú getur verið að vinna með klárri konu sem segir eitthvað betur og réttar en nokkrum öðrum hefur dottið í hug. En þá bara endurtekur þú það með djúpri rólegri röddu og þú sjálfur og allir í kringum þig skynja það sem heilagan sannleik, þó þeir hafi heyrt konu segja það án þess að raunverulega hlusta.

En af því ég var að tala um raunir mínar sem barn kvenréttindakonu, þá held ég því bara áfram. Maður heldur áfram að vera complexaður á fullorðinsaldri því ennþá finnst manni eins og maður sjálfur og fólkið í kringum mig hafi engar hugsjónir. Ég sjálfur spái í næsta fótboltaleik og er ekki að berjast fyrir neinu í þessum heimi. Ég bara óska innra með mér að öllum líði vel. Vona af öllu hjarta að kvenfyrirlitning sé ekki til staðar, ofbeldi gegn konum hætti og konur fái sömu laun og sömu tækifæri og karlarnir. Helvítis karlarnir sem fá allt sem þeir vilja, en ég geri ekki rassgat í því og virðist bara vera sáttur við að vera einn af köllunum.

Ég minnist þess ekki að hafa verið ósammála mömmu eða konunum í kringum hana varðandi þeirra málflutning. Þó ég segi til gamans að það hafi stundum verið erfitt að vera sonur kvenréttindakonu, þá er það ekkert miðað við hvað það hefur gefið mér mikið. Ég held að það hafi bara haft góð áhrif á mig. Ég reyni að ala mín fjögur börn þannig upp að þau viti að konur eigi alveg sama rétt og karlar. Ég hef alltaf verið stoltur af mömmu og ykkur kvenréttindakonum og vildi að ég væri jafn mikil hugsjónamanneskja og þið sem látið verkin tala. Að lokum vil ég þakka ykkur fyrir að gera heiminn betri og gef ykkur gott klapp, takk fyrir mig.