Í upphafi níunda áratugarins fór af stað gagnrýnin umræða innan Kvennalistans um það hvort of mikil áhersla væri lögð á kvenlæg siðferðisgildi og það að konur hafi sterkari siðferðisvitund en karlar. Slík ímynd viðhaldi staðalímynd af hinni góðu og siðprúðu konu.
Einnig kom fram gagnrýni á að hreyfingin legði of mikla áherslu á mæðrahyggju. Samkvæmt hugmyndafræði Kvennaframboðs- og Kvennalistakvenna um sérstakan reynsluheim kvenna eru konur aldar upp við tiltekin hlutverk, ákveðnar væntingar og sjálfsmynd hvort sem þær eignast börn eða ekki. Þessi áhersla á umönnunar- og móðurhlutverkið væri farin að sníða konum of þröngan stakk og orðin heftandi fyrir frelsi kvenna til að velja.
Umræðan náði hápunkti árið 1995 þegar fræðigrein eftir Sigríði Dúnu og Ingu Dóru Björnsdóttur birtist í The European Journal of Women´s Studies. Í greininni gagnrýna þær Kvennalistann meðal annars fyrir mæðrahyggju og áherslu hans á að konur séu í eðli sínu ólíkar körlum, þær hafi annað og betra fram að færa í samfélaginu en þeir.
Þær telja að konur sem hafi ekki lifað í samræmi við ímynd Kvennalistans hafi verið jaðraðar, þaggaðar eða jafnvel gefið skyn að réttast væri að þær yfirgæfu hreyfinguna.
Þær líta svo á að refsingar séu viðhafðar innan Kvennalistans og tiltaka tvö dæmi. Annað tengist öðrum greinarhöfundinum sem skildi við maka sinn og hóf sambúð með forystumanni úr öðrum stjórnmálaflokki sem hafi gert hana tortryggilega í augum Kvennalistakvenna að mati greinarhöfunda. Hitt dæmið er af varaþingkonu sem greinarhöfundar segja að hafi verið vikið til hliðar þar sem eiginmaður hennar hafi verið ásakaður um þátttöku í vafasömum viðskiptasamningum. Á svipuðum tíma og greinin birtist sat viðkomandi kona í einu af efstu sætum Kvennalistans í Alþingiskosningunum 1995 .
Í greininni segir einnig að Kvennalistinn telji að það sé: „only through the experience of actually giving birth that women´s conciousness and feminine self is fully realized and comes into bloom.“
Margar Kvennalistakonur urðu til að mótmæl þeirri mynd sem dreginn er upp af Kvennalistanum í greininni. Sjá greinar hér að neðan.