Haldinn var opinn stefnumótunarfundur á Hallveigarstöðum eftir Hótel Borgar fundinn í lok nóvember. Yfir 150 konur mættu og skráðu sig í hópa um hugmyndafræðigrundvöll og helstu málaflokka. Kristín Jónsdóttir kynnti starfið fram undan og Valgerður Magnúsdóttir sagði frá framboðinu á Akureyri.
Í hópunum var orðið látið ganga til að tryggja að sem flestir tækju þátt í umræðunni og létu skoðun sína í ljós. Það var mikill baráttuhugur í konum og þær skynjuðu að þær væru að skapa eitthvað sögulegt.
Kosin var framkvæmdanefnd, sem í sátu Áslaug Ragnars, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Sigrún Sigurðardóttir, Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir og Helga Thorberg. Henni var ætlað að að vinna að undirbúningi að stofnun Kvennaframboðs. Einnig var kosið í fjáröflunarnefnd og kynningarnefnd.
Kvennaframboð tók Hótel Vík á leigu. Þar var mikið líf og fjör frá morgni til kvölds. Haldnir voru ótal fundir næstu mánuði og ár. Í janúar 1982 var opin ráðstefna um hugmyndafræðilegan grundvöll framboðsins. Skipað var í hópa sem ræddu fjórar spurningar; Hvers vegna kvennaframboð? Hver er tilgangur kvennaframboðs? Hvað eiga samtökin að heita? Og hver er afstaðan til þátttöku karla? Helga Kress, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Helga Jóhannsdóttir voru kosnar í samræmingarefnd til að vinna úr niðurstöðum hópanna og leggja fram drög að hugmyndafræðigrundvelli. Hann var síðan samþykktur með litlum breytingum um miðjan janúar.