Hugmynd um framboð kvenna til borgarstjórnar vorið 1982 kviknaði hjá konum í miðstöð Rauðsokkahreyfingarinnar.
Sumarhópurinn, undirbúningshópur fyrir kvennaframboð í Reykjavík, boðaði til fundar í Sokkholti, aðsetri Rauðsokkahreyfingarinnar. Næstu fundir voru haldnir í Norræna húsinu til að aftengja framboðið við Rauðsokkur því mikilvægt þótti að ná sem breiðastri samstöðu kvenna hvar í flokki sem konur stæðu. Um mitt sumar bárust þær fréttir frá Akureyri að konur þar væru einnig að undirbúa framboð án þess að hafa haft hugmynd um að Reykjavíkurkonur væru í sömu hugleiðingum. Það lá eitthvað í loftinu sem kallaði á breytingar.
Rauðsokkur kusu að standa utan við kerfið og gagnrýndu það utan frá. Þær náðu miklum árangri en sú leið var komin að ákveðnum endimörkum og það var komin þreyta í starfið. Konur vildu fara inn í kerfið og breyta því innan frá. Þær vildu nýtt tæki í baráttunni, nýjan tón, breytta forgangsröðun og nýtt verðmætamat. Konur vildu hvorki byggja á þeim hugmyndum sem karlar höfðu mótað í aldanna rás né láta úreltar skilgreiningar um kapítalisma og kommúnisma, „vinstri“ og „hægri“, verða fjötur um fót.
Hinn nýi tónn eða áhrifavaldur kom að utan. Sumarið 1978 hafði verið endurútgefin í Svíþjóð bók eftir Elin Wägner, Väckarklocka, sem fjallar um kenningar hennar um forna kvennamenningu og mæðraveldi. Berit Ås hafði einnig sett fram kenningar um kvennamenningu í grein sem birtist árið 1975. Einnig fjallar hún um kvennamenningu í bókinni Kvinner i alle land sem kom út árið 1981.
Kvennamenning
Hugmyndir um kvennamenningu eða menningarfemínisma fengu mikinn hljómgrunn. Þær byggja á kenningu um að konur eigi sameiginlegan reynsluheim á grundvelli kynferðis. Hann ráðist af uppeldi, rótgrónum hlutverkum og vinnu kvenna á heimilum. Hann helgist af þeirri reynslu kvenna að ala af sér börn, fæða þau og klæða og annast umönnunarstörf. Kvennamenning hafi verið næsta ósýnileg en eigi sér aldagamlar rætur, arfur sem borist hafi frá kynslóð til kynslóðar.
Kvennamenningarnálgunin gekk þvert á hugmyndafræði marxískra femínista um samstöðu með verkalýðsstéttinni og „öreigum allra landa“. Hún gerði ráð fyrir að konur samsömuðu sig öðrum konum óháð stétt og uppruna.
Konur vildu verða gerendur en ekki þolendur og leggja áherslu á hið jákvæða í reynslu og lífssýn kvenna í stað hins neikvæða. Þar með var horfið frá hinni neikvæðu fórnarlambsumræðu sem einkenndi kvennabaráttu víða á Norðurlöndum á þessum tíma.
Leiðir skilja
Yfir sumarið funduðu um 50 konur reglulega. Undir haust kom í ljós hugmyndafræðilegur ágreiningur innan Sumarhópsins. Annars vegar milli kvennamenningarfemínista sem höfnuðu marxískri stéttaskilgreiningu á þeim forsendum að hún félli ekki að veruleika kvenna og hins vegar marxískra eða sósíalískra femínista sem töldu að undirokun kvenna væri afleiðing af stéttakúgun.
Í september var ljóst að ágreiningurinn yrði ekki brúaður. Konur í Fylkingunni og Alþýðubandalagi reyndust reiðubúnar að taka þátt í umræðunni en vildu ekki standa fyrir framboði þegar til kastanna kom. Þær töldu þetta háborgaralega strauma og að ofuráhersla á „reynsluheim kvenna“ skyggi á raunverulegar þjóðfélagsandstæður og sjálfa orsök kvennakúgunar.
Þær snéru því til sinna flokka. Eftir sátu 12 konur sem vildu láta reyna á framboðshugmyndina. Þær boðuðu til blaðamannafundar til að kynna borgarafund á Hótel Borg hinn 14. nóvember um hugsanlegt kvennaframboð. Þessar konur voru Erna Indriðadóttir, Guðfinna H. Friðriksdóttir, Helga Kress, Helga Ólafsdóttir, Helga Sigurjónsdóttir, Hildur Sveinsdóttir, Hjördís Hjartardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.
(Textinn byggir á bók Kristínar Jónsdóttur „Hlustaðu á þína innri rödd.“ Kvennaframboð í Reykjavík og Kvennalisti 1982-1987)