Mælirinn fylltist hjá Kvennalistakonum þegar útvarpsráð samþykkti, fyrir kosningarnar 1987, að fulltrúi þeirra fengi ekki að taka þátt í hringborðsumræðum í sjónvarpi, kvöldið fyrir kjördag. Áður hafði útvarpsráð samþykkt að við framboðskynningu flokkanna fengi Kvennalisti aðeins 15 mínútur meðan aðrir flokkar fengu 20 mínútur Sama gilti í útvarpi, Kvennalistakonur fengu að sitja fyrir svörum fréttamanna í 15 mínútur meðan aðrir flokkar fengu 20 mínútur.
Ákveðið var að mótmæla þessum ólýðræðislegu vinnubrögðum. Gengið var að Sjónvarpshúsinu þar sem konur mótmæltu með því að sveipa sig þögn. Engin mælti orð frá vörum og margar voru með klút bundinn fyrir munninn til að sýna á táknrænan hátt að verið var að reyna að þagga niður í konum.