Reykjavíkurkonur stóðu fyrir fundi í Hamraborg 1, Kópavogi hinn 2. mars með áhugahópi um kvennalista í Reykjaneskjördæmi. Þær Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Guðrún Jónsdóttir, eldri, fluttu ræður. Samþykkt var einróma að vinna að undirbúningi fyrir kvennalista í kjördæminu. Eftir ræðurnar voru fjörugar umræður um stefnuskrá.
Hinn 6. mars stóðu Kvennalistakonur í Reykjavík fyrir fundi á Hallveigarstöðum frá kl. 10-18 til að ræða stefnuskrá framboðsins. Áhugakonakonur úr Reykjanesi fjölmenntu á fundinn og hittust sérstaklega kl. 14 til að ræða hugsanlegt framboð í Reykjanesi. Mikill áhugi reyndist fyrir að láta reyna á það. Það sem helst stóð í konum var; reynsluleysi í kosningabaráttu, vanþekking á stóru málunum, ekki var vitað um viðbrögð á Suðurnesjum, fjárskortur, húsnæðisleysi og síðast en ekki síst hvað konur þekktust lítið innbyrðis.
Niðurstaðan var að samþykkt var að bjóða fram. Innan við þrír mánuðir voru til stefnu og því þurfti að láta hendur standa fram úr ermum. Hafist var handa við að skipuleggja starfið, kannað var með tengilið á hverju svæði og ákveðið að halda fundi í Hafnarfirði, Suðurnesjum, Innri Njarðvík og víðar. Skipaður var blaðaútgáfuhópur (Sigrún Jónsdóttir, Anna Ólafsdóttir, Björnsson og Elín), stefnuskrárhópur (Guðrún Einarsdóttir og Þuríður Ingimarsdóttir), fjáröflunarhópur (Guðfinna Friðriksdóttir og Sigríður Auðunsdóttir) framkvæmdanefnd (Sigrún Jónsdóttir, Sigríður Hjaltadóttir, Guðný Guðmundsdóttir, Ingibjörg Guðmundsdóttir og Guðrún Gísladóttir) og uppstillinganefnd (Anna Ólafsdóttir Björnsson, Hulda, Elínborg Stefánsdóttir og Sigríður Sveinsdóttir).
Eins og í Reykjavík voru flestar konurnar reiðubúnar að sitja á lista en ekki í efstu sætunum. Eftir nokkra leit að konu í efsta sætið bárust böndin að Kristínu Halldórsdóttur sem þá var stödd í London. Haft var samband við hana og hún þurfti ekki að hugsa sig lengi um.
Eftir að búið var að finna konuna í efsta sætið og konurnar fóru að kynnast betur skapaðist mikil og góð stemmning. Fleiri konur komu til leiks og starfið varð sífellt öflugra og kraftmeira.